Auknar tekjur og hærra tap

Forstjóri félagsins segir afkomuna vera í takt við áætlanir.
Forstjóri félagsins segir afkomuna vera í takt við áætlanir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Heildartekjur Icelandair group jukust um 21% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Útgjöld jukust þó einnig talsvert og var afkoma ársfjórðungsins lakari en á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra félagsins, að afkoman sé í takt við áætlanir. Er yfirskrift tilkynningarinnar „Ár breytinga,“ en félagið hefur undanfarið farið í gegnum miklar skipulagsbreytingar.

Heildartekjur félagsins voru 267,6 milljón dalir á fyrsta ársfjórðungi í ár, en voru 222,1 milljón árið áður. EBITDA-afkoma var neikvæð um 18,2 milljónir dala og lækkaði um rúmlega 8,2 milljónir dala. Heildartap tímabilsins var 34,5 milljónir dala á móti 29,9 milljónum í fyrra.

Icelandair flutti svipað marga farþega á fyrsta ársfjórðungi í ár og í fyrra. Voru þeir 659 þúsund og fjölgaði um 0,3%. Sætanýting fór niður úr 77,4% í 76,3%. Hjá Air Iceland connect var farþegafjöldinn ívið betri en í fyrra og hækkaði úr 71,5 þúsund í 72,4 þúsund, en sætanýting lækkaði hins vegar úr 63,9% í 60%. Fraktflutningar jukust hins vegar um 23%.

Fyrirtækið bendir á að samanburðartölur frá árinu 2017 séu um 0,2% hærri en áður hafi komið fram í birtum farþegatölum. Skýrist það af innleiðingu á nýju tekjubókhaldskerfi í fyrra og hafi villa fundist við yfirfærslu gagna sem hafi leitt af sér skekkju.

Seldum gistinóttum hjá hótelum fyrirtækisins fækkaði um 5% á tímabilinu, en þegar tekið er tillit til þess að framboðnum gistinóttum fækkaði einnig örlítið var lækkun á herbergjanýtingu 2,7%.

Laun og annar starfsmannakostnaður hækkaði um 31% á tímabilinu, en helsta skýring þess er gengisáhrif. Stafar það af því að uppgjör félagsins er í dollurum, en nær allur launakostnaður er í íslenskum krónum og hefur gengisþróun undanfarið verið félaginu óhagstæð. Þá fjölgaði stöðugildum Icelandair vegna vaxtar félagsins og vegna þess að verið er að taka í notkun nýja flugvélategund, Boeing 737 MAX, og kallar það á fleiri áhafnir í þjálfun á meðan á undirbúningstíma stendur. Þá ákvað félagið að nýta frekar eigin starfsmenn í stað þess að kaupa þjónustu af þriðja aðila og hefur stöðugildum á viðhaldssviði félagsins fjölgað um 42 milli ára. Lækkar því aðkeypt þjónusta en laun lækka. Þá hefur eldsneytiskostnaður hækkað um 31% milli ára hjá félaginu, en það skýrist af hækkandi heimsmarkaðsverði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK