Reyna að koma böndum á fall pesóans

Mauricio Macri forseti Argentínu er að reyna að endurskipuleggja hagkerfið ...
Mauricio Macri forseti Argentínu er að reyna að endurskipuleggja hagkerfið í anda frjálsra markaðsviðskipta og minnka ríkisútgjöld. AFP

Seðlabanki Argentínu hækkaði í dag stýrivexti í þriðja skiptið á átta dögum, að þessu sinni upp í 40%. Það er viðbragð við því að virði argentínska pesóans hefur fallið mikið að undanförnu, en á síðasta árinu hefur virði pesóans dregist saman um fjórðung.

Síðast í gær voru vextirnir hækkaðir úr 30,25% upp í 33,25%, en viku fyrr höfðu þeir verið hækkaðir úr 27,25%.  Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að sérfræðingar telji að efnahagsvandræði Argentínumanna gætu komið til með að verða enn alvarlegri á næstunni.

Forseti Argentínu, Mauricio Macri, er að reyna að opna hagkerfið í landinu og innleiða kerfisbreytingar í anda frjálsra viðskipta. Með því hyggst hann snúa við þeirri þróun sem varð undir forvera hans í embætti, Cristinu Fernandez de Kirchner, en argentínskt efnahagslíf hefur einkennst af miklum ríkisútgjöldum og verndartollum.

Virði argentínska pesóans hefur fallið mikið að undanförnu. Hér má ...
Virði argentínska pesóans hefur fallið mikið að undanförnu. Hér má sjá þróunina gagnvart Bandaríkjadal frá árinu 2008. xe.com

Verðbólga hefur lengi verið vandamál í Argentínu og var 25% á síðasta ár, sú hæsta í Suður-Ameríku fyrir utan auðvitað Venesúela. Seðlabanki Argentínu sett sér markmið um að ná verðbólgunni niður fyrir 15% á þessu ári og hyggst standa við það markmið þrátt fyrir vandræði gjaldmiðilsins.

„Þessi vandræði munu halda áfram nema ríkisstjórnin stígi inn og sannfæri fjárfesta um að hún muni stíga enn ákveðnari skref í átt að því að að laga efnahagslega veikleika Argentínu,“ segir hagfræðingurinn Edward Glossop við BBC.  

Hann segir það koma á óvart hversu hratt hlutirnir virðast vera að fara til verri vegar í Argentínu og segir stjórnvöld verða að draga úr ríkisútgjöldum hraðar en þau höfðu áætlað.

„Þangað til að það gerist er líklegt að pesóinn verði áfram undir pressu,“ segir Glossop.

Frétt BBC um málið.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir