Framtíð Air France hangir á bláþræði

Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, segir Air France geta „horfið“ …
Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, segir Air France geta „horfið“ komi til frekari verkfalla. AFP

Óvíst er um framtíð Air France-flugfélagsins og sagði Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, í dag að flugfélagið gæti „horfið“ komi til frekari verkfalla að því er BBC greinir frá. Air France hefur átt í kjaradeilum við starfsfólk og sagði Le Maire, að þrátt fyrir að franska ríkið eigi 14,3% í flugfélaginu muni það ekki koma því til bjargar.

Einn af framkvæmdastjórum Air France, sem er að hluta til í eigu KLM, hætti á föstudag vegna málsins. Air France er eitt stærsta flugfélag Evrópu, það á hins vegar í verulegum vanda eftir röð verkfalla undanfarnar vikur.

Á morgun kemur til 14. verkfallsdagsins, en starfsfólk Air France krefst 5,1% launahækkana í ár.

Frönsk stjórnvöld eru ekki ókunn verkföllum og hefur ítrekað komið til aðgerða vegna umdeildra breytinga á vinnulöggjöf landsins, m.a. hjá hinu ríkisrekna SNCF-lestarfyrirtæki.

Le Maire sagði í viðtali við frönsku fréttastöðina BFM að hann hvetti alla til að sýna ábyrgð. „Áhöfnina, starfsfólk á jörðu niðri og flugmenn sem eru að fara fram á óréttlætanlegar launahækkanir. Afkoma Air France hangir á bláþræði,“ sagði hann og kvað franska ríkið ekki munu greiða skuldir flugfélagsins.

„Air France mun hverfa ef ekki eru gerðar nauðsynlegar breytingar til að gera það samkeppnishæft,“ varaði Le Marie við.

Air France tilkynnti um 269 milljóna evra tap á fyrsta fjórðungi þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK