Skerðing á tollkvóta brjóti gegn neytendum

Til stendur að skerða einhliða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjöt, sem …
Til stendur að skerða einhliða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjöt, sem tollasamningur Íslands og ESB kveður á um. mbl.is/Golli

Félag atvinnurekenda (FA) telur að skerðing á tollkvóta fyrir kjöt brjóti á rétti neytenda og innflytjenda. Þetta kemur fram í bréfi sem félagið hefur sent Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, vegna áforma ráðherra um að skerða einhliða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjöt, sem tollasamningur Íslands og ESB kveður á um.

„Félagið krefst upplýsinga og svara frá ráðherra um þessa fyrirætlan, svo og um ákvörðun sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir að hafi verið tekin um að taka aftur upp fyrirkomulag sem hafði verið fallið frá, að auglýsa innflutningskvótana tvisvar á ári,“ segir í tilkynningu frá FA.

Í skýrslu starfshóps um tollasamning og mótvægisaðgerðir stjórnvalda er meðal annars lagt til „við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar“.

„Félag atvinnurekenda mótmælir þessum áformum ráðuneytisins harðlega,“ segir í bréfi FA til ráðherra. „Í tollasamningi Íslands og ESB er hvergi kveðið á um að tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvörur skuli miðaðir við kjöt með beini. Samningurinn tekur því til hvort heldur er innflutnings á úrbeinuðu kjöti eða kjöti með beini. Fyrsta úthlutun á tollkvótum samkvæmt samningnum hefur þegar átt sér stað og er þar enginn greinarmunur gerður á kjöti með eða án beins.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í bréfinu að það sé algjörlega forkastanlegt að tveimur og hálfu ári eftir að samningurinn við ESB var gerður, sem þáverandi ráðherrar Sigurður Ingi Jónsson og Gunnar Bragi Sveinsson kynntu sem „fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur“, skuli landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra tilkynna áform um að hafa af neytendum stóran hluta þess ávinnings, sem í samningnum felst.

„Félag atvinnurekenda telur að fyrirætlan ráðherra sé klárlega takmarkandi innflutningsráðstöfun. Þá væri með þessari ráðstöfun augljóslega brotið gegn rétti jafnt neytenda sem innflutningsfyrirtækja, sem byggt hafa réttmætar væntingar á tollasamningnum við ESB. Verði áformum ráðuneytisins hrint í framkvæmd kunna innflutningsfyrirtæki að þurfa að leita þess réttar síns,“ segir í bréfi FA.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK