Áhættusamt að fljúga til Asíu

„Það er mikil áhætta fólgin í því að fljúga til Asíu. Þetta er langt flug og þetta eru nýir markaðir sem íslensku flugfélögin hafa ekki sótt inn á áður,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is, í samtali við mbl.is, spurður út í áform WOW air sem hyggst fljúga til Indlands.

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air,  gaf það út í vikunni að flugfélagið myndi hefja áætlunarflug til Delí á Indlandi 6. desember 2018.

„Það er allt öðruvísi að bæta við nýjum áfangastað í Norður-Ameríku heldur en að hefja flug til Asíu. Það krefst töluverðrar fjárfestingar. Það er ljóst að ef þetta gengur upp þá gæti þetta orðið mjög ábatasamt,“ segir Kristján og reiknar með því að stjórnendur Icelandair komi til með að fylgjast grannt með gengi WOW í Asíu.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. mbl.is/Rax

Mikilvægir markaðir í Asíu

„Það sýnir sig að ferðamannastraumurinn í heiminum, asísku markaðirnir, og sérstaklega Kínverjar, eru að verða verðmætustu markaðirnir fyrir ferðaþjónustu í heiminum. Það er skiljanlegt að flugfélögin leiti þangað en það er sýnd veiði en ekki gefin,“ bætir hann við.

Kristján reiknar með því að flóra ferðamanna á Íslandi komi til með að breytast mikið. „Indverskum ferðamönnum ætti að fjölga verulega og þeir gætu orðið tvöfalt fleiri strax í kjölfarið,“ segir Kristján og vísar í tölur frá Ferðamálastofu máli sínu til stuðnings.

Hann telur að indverskir ferðamenn gætu orðið allt að þrjú þúsund talsins á mánuði yfir vor- og vetrarmánuði. Þeir yrðu þá svipað fjölmennir og kínverskir og ítalskir ferðamenn hér á landi.

Nýjar flugvélar lykilatriði

Flogið verður fimm sinnum í viku milli Íslands og Delí með nýjum Airbus A330neo-flugvélum, sem eru sagðar bæði umhverfisvænni og sparneytnari en eldri vélar. „Fyrir vikið getum við boðið enn betri fargjöld en áður hefur verið gert á þessum leggjum,“ kom fram í tilkynningu WOW air vegna flugsins.

Kristján telur þetta atriði vera mikilvægt í innrás íslensks flugfélags inn á nýjan og framandi markað en „þá skiptir máli að vera á vélum sem eyða kannski allt að 30% minna en eldri vélarnar og þetta hlýtur að vera mjög mikilvægt á þessum tíma þegar olíuverð hækkar hratt.“

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is.
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir