Telja Icelandair of hátt verðlagt

Í nýju verðmati Arion banka er dregin upp nokkuð önnur ...
Í nýju verðmati Arion banka er dregin upp nokkuð önnur mynd af stöðu Icelandair en sú sem starfsmenn Arctica hafa gert á fundum með fjárfestum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á síðustu vikum hafa starfsmenn á vegum fjármálafyrirtækisins Arctica Finance kynnt afstöðu sína til verðlagningar á bréfum Icelandair Group, sem skráð eru á aðalmarkaði í Kauphöll Íslands.

Í þessari kynningu, sem ViðskiptaMogginn hefur séð, er bent á að núverandi verðlagning bréfanna sé verulega há í samanburði við verðlagningu á bréfum annarra skráðra flugfélaga sem keppa á sama eða svipuðum markaði og Icelandair. Í lok dags í gær voru bréf Icelandair Group skráð á genginu 12,57 í Kauphöllinni. Frá upphafi maímánaðar hafa þau lækkað um ríflega 12%. Þá hafa bréf fyrirtækisins lækkað gríðarlega á síðustu tveimur árum.

Í máli Arctica kemur fram að blikur séu á lofti á markaði, m.a. vegna hækkandi eldsneytisverðs en einnig mikils launakostnaðar. Er bent á að hlutfall launakostnaðar af tekjum Icelandair séu mun hærra en hjá flestum samkeppnisaðilum, þ.m.t. Wow air, SAS og Norwegian.

Í kjölfar þess að starfsmenn Arctica kynntu vangaveltur sínar um verðlagningu á bréfum Icelandair hefur hlutdeild Arctica í viðskiptum með bréf Icelandair aukist verulega. Samkvæmt upplýsingum eftir tilboðsbókum, sem aðgengilegar eru í gögnum Kauphallarinnar, sést að í maímánuði er hlutdeild Arctica 22,3%. Í aprílmánuði nam hlutdeildin 13,26%, marsmánuði 10% og í febrúar 5,92%. Meðalhlutdeild Arctica á markaðnum með bréf Icelandair það sem af er ári nemur 9,69%. Aðilar á markaði, sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við, einkum núverandi hluthafar í Icelandair, hafa lýst gremju í garð Arctica vegna fyrrnefndrar kynningar. Hafa þeir haldið því fram að fyrirtækið sé að tala bréf félagsins niður. Þeim fullyrðingum höfnuðu forsvarsmenn Arctica í samtali við ViðskiptaMoggann þegar málið var borið undir þá.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir