Þrjú fyrirtæki hlutu viðurkenningar

Forsetinn ásamt þeim sem hlutu viðurkenningar í dag.
Forsetinn ásamt þeim sem hlutu viðurkenningar í dag. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækin Oculis, Syndis og Kerecis hlutu í dag viðurkenningar Verðlaunasjóðs iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti forsvarsmönnum fyrirtækjanna þriggja viðurkenningarnar sem eru 1 milljón króna sem hvert fyrirtækjanna hlýtur ásamt sérstökum verðlaunagrip og verðlaunaskjali.

Afhending viðurkenninganna fór fram í listagalleríinu Berg Contemporary á Klapparstíg 16, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis ehf. hefur þróað byltingarkennda tækni til meðhöndlunar á augnsjúkdómum. Um er að ræða nýja íslenska uppfinningu þar sem lyfjafræði og læknisfræði koma saman,“ segir í tilkynningunni.

„Syndis er fyrirtæki í net- og upplýsingaöryggi og framkvæmir m.a. öryggisúttektir, innbrotsprófanir, greiningar á óværum, sinnir viðbragðsþjónustu vegna tölvuinnbrota, og ráðgjöf í upplýsingaöryggi fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum Íslands á sviði fjármála, stofnana, og önnur tækni fyrirtæki. Að auki hefur Syndis framkvæmt öryggisúttektir fyrir stór erlend fyrirtæki.“

„Lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur þróað byltingakennda vöru til meðhöndlunar á sárum og vefjaskaða. Vara Kerecis er Omega3-ríkt þorskroð sem fellur til við roðflettingu á þorskflökum. Kerecis stuðlar því einnig að fullnýtingu á sjávarafurðum sem er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir