Ætla að einbeita sér að kjarnastarfseminni

Icelandair Group hefur sett rekstur Icelandair Hotels í söluferli og …
Icelandair Group hefur sett rekstur Icelandair Hotels í söluferli og ætlar að setja meiri fókus á flugreksturinn. mbl.is/Eggert

Bogi Nils Bogason framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group segir að allt frá því að félagið greindi frá því að það hygðist endurskoða stefnu sína varðandi ferðaþjónustuhluta félagsins hafi forsvarsmenn fundið fyrir miklum áhuga, bæði frá innlendum og erlendum aðilum.

„En við höfum ekki boðið upp í neinn dans í því. Það er ekki fyrr en núna sem við förum að skoða þetta söluferli alvarlega,“ segir Bogi í samtali við mbl.is, en í gær tilkynnti Icelandair Group að félagið hefði ákveðið að hefja söluferli á Icelandair Hotels og fasteignum sem tilheyra hótelrekstrinum, en samtals er um að ræða 1.937 herbergi á landinu öllu á 23 hótelum undir merkjum Icelandair Hotels og sumarhótelkeðjunnar Hótel Eddu.

„Það voru gerðar ákveðnar breytingar á skipulagi félagsins þarna um áramótin, þar sem var settur skýrari fókus á flugreksturinn sem kjarnastarfsemi félagsins og þá sögðum við að við myndum skoða ferðaþjónustuhlutann og hvað við myndum gera þar og nú hefur verið tekin ákvörðun um að setja hann í söluferli. Það þýðir í raun að við erum að setja meiri fókus á kjarnastarfsemina, flugreksturinn, sem er 85-90% af okkar veltu,“ segir Bogi.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group. Ljósmynd/Icelandair Group

Spurður að því hvort Icelandair Group sjái fyrir sér að vera áfram minnihlutaeigandi í hótelstarfseminni segir Bogi að það sé möguleiki, en ekki skilyrði af hálfu félagsins.

„Nú fer þessi vinna í gang og við sjáum hvað kemur út úr henni og það getur verið möguleiki að vera áfram minnihlutaeigendur en það getur líka verið möguleiki að selja allt, ef það er uppi á borðinu. Það er opið, má segja,“ segir Bogi.

Tengist ekki umtalaðri kólnun í ferðaþjónustunni

Hann segir félagið hafa sett sér stefnu árið 2012 um að breyta Íslandi í heilsársáfangastað ferðamanna. Því hefur m.a. fylgt uppbygging í hótelrekstrinum, sem hafi gengið mjög vel eftir. Bogi segir rekstur hótelanna hafa gengið vel.

„Við erum að sjá bata á þessu ári. Veitingareksturinn hefur verið krefjandi, en í heild sinni hefur hann bara gengið vel og mjög gott uppbyggingarstarf hefur verið unnið hérna,“ segir Bogi. Sala hótelanna tengist að sögn Boga ekki að neinu leyti vísbendingum sem virðast vera um „kólnun“ í ferðaþjónustu hérlendis.

„Við höfum alltaf gert ráð fyrir því að þessi vöxtur myndi ekki halda áfram eins og síðustu ár og að það myndi hægja meira á vextinum, sem við höldum að sé nú bara nokkuð heilbrigt, að hann verði hógværari í framtíðinni heldur en verið hefur til þess að við getum byggt „infrastrúktúrinn“ betur upp og tekið betur á móti þessum ferðamönnum. En við erum ekki að sjá einhverja mikla kólnun í spilunum, við teljum að langtímahorfurnar séu mjög góðar fyrir Ísland sem ferðamannaland,“ segir Bogi.

Hann segir þó að kostnaðarhækkanir hafi haft áhrif á afkomu í íslenskri ferðaþjónustu. „Þar af leiðandi þurfa íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að horfa inn á við í rekstri og hagræða og mögulega stækka einingarnar, til að landið verði samkeppnishæfara.“

Söluferlið mun að sögn Boga ekki hafa nein áhrif á uppbyggingu nýs hótels við Austurvöll, sem ráðgert er að opni árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK