Kaupin á The Viking hljóta brautargengi

The Vik­ing við Hafn­ar­stræti í Reykja­vík.
The Vik­ing við Hafn­ar­stræti í Reykja­vík. mbl.is/Eggert

Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast vegna kaupa Pennans á rekst­ri og birgðum versl­ana The Vik­ing sem rekn­ar hafa verið af fé­lag­inu H-fast­eign­um ehf.

Samruninn felur í sér að Penninn kaupir allan rekstur H-fasteigna sem áður var rekinn af Hórasi ehf. Kaupir Penninn allar birgðir sem tilheyra þeim rekstri og tekur yfir samninga og viðskiptasambönd sem tilheyra rekstrinum. Reksturinn verður þannig hluti af rekstri Pennans.

H-fasteignir er í grunninn fasteignafélag en rekur í dag fjórar verslanir með minjagripi og handverk ætlað erlendum ferðamönnum. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að rekstur H-fasteigna byggi nær alfarið á tekjum vegna sölu til ferðamanna en breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi Hórasar vegna styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Velta af sölu til ferðamanna hafi minnkað verulega á árinu 2017 og jafnframt hafi orðið miklar kostnaðarhækkanir í verslunarrekstri vegna mikilla launahækkana og hækkandi húsaleigu. Þá segir í ákvörðun eftirlitsins að rekstur Hórasar hafi gengið illa síðastliðin þrjú ár og hafi félagið verið rekið með miklu tapi síðastliðin ár.

Í janú­ar lokaði lög­regl­an þrem­ur versl­un­um The Vik­ing að beiðni embætt­is toll­stjóra. Þær voru svo opnaðar nokkru síðar, en þá hafði rekst­ur þeirra verið færður frá fé­lag­inu Hóras yfir á fé­lagið H-fast­eign­ir. Sami stjórn­ar­maður var í báðum fé­lög­um.

Penninn rekur 16 verslanir um land allt undir nafninu Penninn-Eymundsson, húsgagnaverslun í Skeifunni 10 og Fyrirtækjaþjónustu Pennans. Jafnframt rekur Penninn tvær ferðamannaverslanir undir merkjum Islandia í Bankastræti 2 og Kringlunni. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir