Rússar blæða en FIFA græðir

FIFA gerir kröfu um að lágmarki 35.000 sæti á völlunum. ...
FIFA gerir kröfu um að lágmarki 35.000 sæti á völlunum. Völlurinn í Volgograd tekur 45.568 manns í sæti en einungis mættu 2.537 áhorfendur að meðaltali á leiki Rotor Volgograd á nýafstöðnu tímabili. AFP

„Í stuttu máli má segja að Rússar borgi og FIFA græði.“ Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um fjármál HM í knattspyrnu. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri bankans, kynnti skýrsluna nú síðdegis en mótið hefst í Rússlandi 14. júní.

Björn sagði að það væri nánast ómögulegt fyrir ríkið sem heldur mótið að hagnast á því. Gestgjafar þurfi að treysta á ófyrirséðar tekjur af aukinni ferðamennsku, áhrif innviðafjárfestinga og fleira. Á meðan hagnast FIFA gríðarlega á mótinu.

FIFA græðir á HM

Björn bendir meðal annars á að um 95% tekna FIFA árin 2014 til 2018 verði vegna HM. Ef mótið árið 2026 verður haldið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó er reiknað með að hagnaður FIFA af mótinu verði á við samanlagðan hagnað mótanna árið 2006, 2010, 2014 og 2018.

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka.
Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka. mbl.is

Rússnesk yfirvöld hafi gefið út að heildarútgjöld vegna mótsins muni nema um 1.200 milljörðum króna. Ríkissjóður landsins leggur til tæp 60%, sveitarfélög og héruð um 14% og einka- og ríkisrekin fyrirtæki afganginn.

Áætlað er að leikvangar kosti um 540 milljarða og að aðrir 500 milljarðar fari í lestar-, bíla- og flugsamgöngur. Björn segir að töluvert misræmi sé í hvort sagt sé að fjárfestingar í samgönguinnviðum sé hluti kostnaðar við hýsingu mótsins eða ekki. Embættismenn, rétt eins og í öðrum löndum sem hafa hýst stórmót, hafa ítrekað haldið því fram að fjárfesting í innviðum sé ekki kostnaður heldur arðbærar fjárfestingar.

„Þarf stórmót í íþróttum til að sannfæra stjórnmálamenn um að ráðast í skynsamlegar og arðbærar innviðafjárfestingar? Ef þær eru svona arðbærar, hvers vegna var ekki löngu búið að ráðast í þær?“ spurði Björn.

„Líklegra að karlmaður eignist barn“

Hann sagði að loforð um að fjármálaætlanir standist, fjárfestingar borgi sig og að ferðamenn eyði miklu á meðan mótið standið yfir skili ekki árangri. „Í aðdraganda Ólympíuleikanna í Montréal 1976 sagði borgarstjórinn að það væri líklegra að karlmaður eignaðist barn en að leikarnir færu fram úr fjárhagsáætlun. Svo fór að þrátt fyrir að mótið væri skemmtilegt fyrir íbúa borgarinnar kostaði það fjórfalda þá upphæð sem kynnt var í upphafi.“

Björn bendir á að fyrir HM í Brasilíu fyrir fjórum árum hafi framúrkeyrslan vegna framkvæmda fyrir mótið verið áætluð um 200% en í hálfa öld hafi ekki tekist að halda sumar- eða vetrarólympíuleikum innan heimilda. Framúrkeyrslan hefur verið um 150% að meðaltali síðustu 50 ár.

„Heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar virðist ekki ætla að vera nein undantekning, raunar akkúrat í meðaltalinu,“ sagði Björn.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir