Slíta Tryggingasjóði sparisjóða

Sparisjóður Strandamanna er á Hólmavík.
Sparisjóður Strandamanna er á Hólmavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á aðalfundi Tryggingasjóðs sparisjóða í mars var ákveðið að slíta sjóðnum og verður eignum hans ráðstafað til starfandi sparisjóða. 

„Fjármálaráðuneytið stakk upp á þessu fyrir nokkrum árum en þá voru sparisjóðirnir ekki tilbúnir. Síðan var þetta rætt og fyrir rúmu ári var ákveðið að ganga í það verkefni að fá sjóðnum slitið,“ segir Guðmundur Björgvin Magnússon, formaður Tryggingasjóðs sparisjóða, í samtali við mbl.is og bætir við að sparisjóðir greiði í Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta. 

Tryggingasjóði sparisjóða var komið á fót árið 1986 sem sjálfseignarstofnun. Hlutverk hans hefur falist í því að tryggja hagsmuni viðskiptamanna, fjárhagslegt öryggi sparisjóða og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu og slit sparisjóða. Öllum sparisjóðum er skylt að eiga aðild að sjóðnum en þeir eru nú fjórir talsins. 

Samþykkt var á fundinum að við slit sjóðsins verði eignum hans ráðstafað til starfandi sparisjóða í sömu hlutföllum og svarar til heildarinnlána sparisjóðanna. Samkvæmt ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2017 nema eignir hans 274 milljónum króna og skuldir 6 milljónum. 

Eignir sjóðsins skiptast þannig að 60 milljónir króna liggja á bankareikningi, hlutabréfaeign í Landsbankanum nemur 104 milljónum, 20 milljónir eru í verðbréfasjóðum á vegum Íslenskra verðbréfa og stofnfé í Sparisjóði Höfðhverfinga nemur tæplega 26 milljónum. Þá er sjóðurinn eigandi að skuldabréfi með víkjandi rétti útgefnu af Sparisjóði Suður-Þingeyinga að fjárhæð 63 milljónir króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK