Kaupir eignir af Actavis á Íslandi

Bjarni K. Þorvarðarson forstjóri og Torfi Rafn Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, …
Bjarni K. Þorvarðarson forstjóri og Torfi Rafn Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, voru að vonum ánægðir þegar samningur um kaup Coripharma á Actavis hafði verið undirritaður í gær. mbl.is/​Hari

Coripharma og hópur fjárfesta keyptu í gær lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði og húsnæði fyrirtækisins við Reykjavíkurveg 76 af Teva Pharmaceutical Industries. Skrifað var undir samninginn í gær.

Ákveðinn hópur fyrrverandi lykilstarfsmanna og stjórnenda Actavis hefur undanfarin tvö ár unnið að því að fá fjárfesta að borðinu til þess að gera kaupin möguleg og hefja rekstur lyfjaverksmiðjunnar á ný. Bjarni K. Þorvarðarson rafmagnsverkfræðingur verður forstjóri Coripharma, sem þegar hefur ráðið 10 manns til starfa. Bjarni segir í samtali við Morgunblaðið í dag að innan þriggja mánaða verði starfsmenn orðnir 40 talsins og fyrirtækið stefni að því að innan tveggja ára verði starfsmannafjöldi orðinn 300 manns.

Stærstu fjárfestarnir í Coripharma eru Framtakssjóður, í stýringu Íslenskra verðbréfa, Bjarni, VÍS, Hof og tveir fyrrverandi forstjórar Actavis og Delta. Auk þess fjárfesta áðurnefndir lykilstarfsmenn í félaginu. Kaupverðið er trúnaðarmál, segir í frétt Morgunblaðsins.

Torfi Rafn Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Coripharma, segir að í upphafi verði aðaláherslan lögð á að framleiða samheitalyf undir merkjum annarra lyfjafyrirtækja – svokölluð verktakaframleiðsla – og viðræður séu þegar hafnar við nokkur fyrirtæki. Stefnt verði að því að afgreiða fyrstu lyfin frá Coripharma á fyrsta ársfjórðungi 2019. Torfi segir mikil tækifæri á verktökumarkaðnum sem Coripharma byrji á, en hann velti 5 milljörðum bandaríkjadala og sé spáð 50% vexti á nokkrum árum. „Þegar við svo fullnýtum aðstöðuna og förum í eigin þróun verðum við með framleiðslugetu fyrir markað sem er ennþá umfangsmeiri, eða um 50 sinnum stærri en verktökuframleiðslan,“ segir Torfi.

Fréttatilkynning frá Coripharma

„Coripharma Holding ehf. og Actavis Group PTC ehf., hluti af samstæðu Teva Pharmaceutical Industries Ltd, hafa undirritað samkomulag um kaup Coripharma á Actavis ehf.

Með kaupunum eignast Coripharma stærstu lyfjaverksmiðju á Íslandi og skrifstofuhúsnæði við Reykjavíkurveg 76 ásamt Kársnesbraut 108. Þegar best lét framleiddi lyfjaverksmiðja Actavis í Hafnarfirði um 1,4 milljarða taflna á ári fyrir fjölmarga alþjóðlega markaði.

Hyggjast forsvarsmenn Coripharma hefja lyfjaframleiðslu í Hafnarfirði á ný og virkja þá miklu þekkingu sem þar hafði byggst upp, allt frá því fyrsti hluti verksmiðjunnar var reistur við Reykjavíkurveg árið 1983, þar til framleiðslu var hætt í fyrra. Teva mun áfram eiga og reka Medis og önnur félög í nafni Actavis á Íslandi og heldur öllum réttindum er lúta að Actavis nafninu.

„Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessu samkomulagi við Teva og geta nú virkjað þann mikla áhuga sem við höfum fundið á að endurreisa fyrri framleiðslu og útflutning lyfja héðan. Í hópi Coripharma eru bæði reyndir fjárfestar og vanir aðilar úr rekstri alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og þessarar lyfjaverksmiðju. Samhliða sjálfstæðri lyfjaframleiðslu Coripharma sjáum við jafnframt fram á að njóta góðs af nánu sambýli við önnur lyfjafélög sem eru rekin hér í Hafnarfirðinum. Þannig stefnum við á kraftmikið og frjótt framleiðslu- og þekkingarsamfélag nokkurra félaga í skyldum rekstri í framtíðinni“, segir Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri Coripharma.

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Coripharma, Torfi Rafn Halldórsson, segir: „Félagið stefnir á að verksmiðjan verði komin í fullan rekstur á ný innan árs. Vinna við að manna starfsemina og endurnýja öll gæðavottorð verksmiðjunnar er þegar hafin og stefnum við á að öll tilskilin leyfi til alþjóðlegrar lyfjaframleiðslu verði komin fyrir lok ársins.

Í upphafi munum við gera samstarfssamninga við lyfjafyrirtæki, um að framleiða lyf undir þeirra merkjum. Þegar eru hafnar viðræður við allnokkur alþjóðleg lyfjafyrirtæki, sem hafa sýnt Coripharma mikinn áhuga, sem m.a. byggist á því góða orðspori sem Ísland hefur sem lyfjaframleiðandi í gegnum farsæla sögu Actavis og Medis.“ Teva rekur áfram umfangsmikla starfsemi í Hafnarfirðinum þar sem um 280 manns starfa, m.a. á sölu- og markaðssviði Actavis á Íslandi, í lyfjaþróun og hjá Medis, sem selur lyf og lyfjahugvit félagsins til annarra lyfjafyrirtækja. Kaupverð samningsins, sem undirritaður er með hefðbundnum fyrirvörum, er trúnaðarmál.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK