Dregur verulega úr fjölgun farþega

Ferðamönnum um Leifsstöð fjölgar.
Ferðamönnum um Leifsstöð fjölgar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru um 165 þúsund talsins í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 19.200 fleiri en í maí á síðasta ári.

Frá áramótum hafa 793.500 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,6% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.

Aukningin í maí nemur 13,2% milli ára, sem er meiri hlutfallsleg aukning en aðra mánuði ársins. Sé litið til tímabilsins frá áramótum, eða janúar-maí, dregur úr aukningu í samanburði við fyrri ár.

Aukningin í maí hefur verið að jafnaði 25,6% milli ára síðastliðin fimm ár mest frá 2014-15 eða 36,4% og frá 2015-16 eða 36,5%, segir í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu.

Minni fjölgun nú í maí en undanfarin ár

Fjölgun brottfara í maí á milli ára er nú minni en verið hefur á síðustu árum. Frá 2014 til 2017 var aukningin á bilinu 27 til 45% á milli ára en er 3% nú. Þetta er sama þróun og gætt hefur aðra vetrarmánuði en hlutfallsleg aukning milli ára er þó minni í mars en aðra mánuði vetrarins.

Sé tímabilið frá áramótum skoðað (janúar-maí) í samanburði við sama tímabil nokkur ár aftur í tímann má glögglega sjá að dregið hefur verulega úr þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu ár. 

Frá áramótum hefur verið 5,6% aukning en á sama tíma fyrir ári var hún 46,5%. Næstu tvö tímabil þar á undan hafði aukning á milli ára verið á bilinu 30-35% milli ára. 

Flestir frá Bandaríkjunum

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí eða tæpur þriðjungur og fjölgaði þeim um 18,3% milli ára.

Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Bretar eru nærri helmingur ferðamanna sem fóru um Keflavíkurflugvöll í maí.

Brottfarir Bandaríkjamanna voru 31,2% af heild en þeir voru 18,3% fleiri í ár en á síðasta ári. Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar eða 7,2% af heild í ár en þeir voru 11,1% fleiri en árið 2017. Þar á eftir komu Bretar, 6,4% af heild en þeim fækkaði um 6,3% milli ára.

Hlutfallslega er mest fjölgun í brottförum Pólverja sem voru 77% fleiri í maí í ár en í fyrra en sem fyrr má leiða líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð pólskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna.

„Sé breytingin síðan skoðuð nánar eftir mörkuðum má sjá að dregið hefur úr aukningu frá öllum mörkuðum í samanburði við fyrri ár. Norðurlandabúar standa í stað, Bretum fækkar um 6%, Mið og Suður-Evrópubúum fjölgar um 7% og einungis 2% fjölgun frá stærsta markaðssvæðinu, N-Ameríku. Aukning á milli ára er mest hjá þeim sem flokkast undir „annað“ en þar undir eru meðal annars Asíubúar og Austur-Evrópuþjóðir,“ segir í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu. 

Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara er skoðuð á tímabilinu janúar til maí síðastliðin fimm ár má sjá að samsetning hefur breyst nokkuð. Norður-Ameríkanar voru 28,2% af heild í ár og 29,1% í fyrra sem er nokkuð hærri hlutdeild en 2014, 2015 og 2016.

Hlutdeild Breta var hins vegar um fimmtungur á tímabilinu janúar til maí í ár og í fyrra en ríflega fjórðungur 2014, 2015 og 2016. Norðurlandabúar hafa verið í kringum 8% af heild síðastliðna tvo vetur en hlutdeild þeirra hefur hins vegar minnkað með árunum. Hlutdeild Mið- og SuðurEvrópubúa hefur staðið í stað en þeirra sem falla undir ,,annað“ aukist umtalsvert.

Sá hópur sem hefur stækkað hvað mest samanstendur af ,,öðrum þjóðernum“ en þar á meðal eru Asíuþjóðir. Til að fá betri mynd af samsetningu farþega var þjóðernum í talningum fjölgað úr 17 í 32 í júní á síðasta ári, en þar var meðal annars bætt við Hong Kong-búum, Indverjum, Suður-Kóreumönnum, Singapúrbúum og Taívönum.

Niðurstöður úr talningum sýna að 8,5% farþega það sem af er ári má rekja til Japana og Suðaustur-Asíubúa og 6,2% til Austur-Evrópubúa. Um 62.800 Íslendingar fóru utan í maí í ár eða 22,5% fleiri en í maí 2017.

Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til maí um 251.600 talsins eða 11% fleiri en á sama tímabili árið 2017.

Skoða má breytingarnar myndrænt á vef Ferðamálastofu

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK