Sporna þarf við peningaþvætti

Katherine Nichols, lögmaður hjá Juris lögmannsstofu, hvetur til aðgerða gegn …
Katherine Nichols, lögmaður hjá Juris lögmannsstofu, hvetur til aðgerða gegn peningaþvætti. mbl.is/​Hari

Það er mjög sennilegt að peningaþvætti fari fram á Íslandi. Það kallar á frekari aðgerðir af hálfu yfirvalda.

Þetta segir Katherine Nichols, lögmaður hjá Juris lögmannsstofu, en hún hefur m.a. sérhæft sig í ráðgjöf varðandi peningaþvætti.

Nichols var frummælandi á fyrirlestri í Háskólanum í Reykjavík um þetta efni nýverið, ásamt Helgu Rut Eysteinsdóttur, lögfræðingi hjá Fjármálaeftirlitinu (FME).

Tilefni fundarins var að alþjóðlegur vinnuhópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (FATF) birti í apríl skýrslu um stöðuna í þessum málaflokki á Íslandi. Fram kom í skýrslunni að stjórnvöld þyrftu að vinna að ýmsum úrbótum á þessu sviði.

„Ég held að við þurfum að horfast í augu við að það er næstum öruggt að peningaþvætti fari fram hér á landi. Ég tel að við þurfum að takast á við þann vanda og nú er verið að stíga skref í þá átt. Ég held að FATF-skýrslan sem kom út í apríl hafi greint vandamál á nokkrum sviðum. Ég veit að FME er að vinna að þessum málum, sem og önnur stjórnvöld. Því miður eru Íslendingar að dragast inn í þetta [peningaþvætti] án þess að gera sér grein fyrir því. Vandamálið við peningaþvætti er að það fer fram með leynd. Það fer fram neðanjarðar og sést ekki á yfirborðinu. Það er vísvitandi hulið.“

Ólögmætir fjármunir þvættaðir

Nichols segir markmiðið með peningaþvætti að þvætta fjármuni sem aflað er á ólögmætan hátt. „Það gæti verið þjófnaður. Það gætu verið undanskot frá skatti. Það gæti verið hagnaður af eiturlyfjum, vændi og mansali. Það gæti verið sérhver ólögmæt starfsemi,“ segir Nichols. 

Hún bendir á að varsla slíkra fjármuna sé ólögmæt. Því sé til mikils að vinna fyrir glæpamenn að láta fjármunina líta út fyrir að vera lögmæta. Fara megi ýmsar leiðir í því efni.

Lögmenn eru áhættuhópur

„Aðferðirnar eru stöðugt að breytast. Ein aðferðin er að koma fjármunum fyrir á reikningi hjá lögmanni. Lögmenn eru áhættuhópur hvað þetta varðar. Með því einu að taka við fjármunum inn á reikning sinn hefur lögmaður þvættað peningana. Vegna þess að þegar peningarnir eru síðan greiddir út líta þeir út fyrir að vera lögmætir.

Lögmaðurinn gæti ekki haft hugmynd um að fjármunirnir eigi sér ólögmæta uppsprettu. Glæpamaður lætur lögmann hafa fjármuni og segist vilja kaupa tiltekna fasteign. Biður lögmanninn að ganga frá kaupum. Þannig eignast glæpamaðurinn eignina,“ segir Nichols og bendir á að fara mætti sömu leið með hlutabréf.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK