Oliver og Heiða halda í sjávarútveginn

Teymið á bak við Niceland. Oliver er fyrir miðju og …
Teymið á bak við Niceland. Oliver er fyrir miðju og Heiða lengs til hægri. Ljósmynd/Sissa Ólafsdóttir

Rekjanleiki á fiski er grunnhugmynd á nýju vörumerki sem verður dreift í Bandaríkjunum undir heitinu Niceland. Það mun endanlegur kaupandi í matvörubúð eða á veitingastað geta séð hvaðan fiskurinn er veiddur og hvenær það var. Félagið er að koma á fót skrifstofum í Denver í Bandaríkjunum þar sem á að byrja markaðssetninguna vestanhafs.

Á bak við vörumerkið Niceland eru markaðsfyrirtækið Efni, sem stofnað var af frumkvöðlinum og fjárfestinum Oliver Luckett og Heiðu Kristínu Helgadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Besta flokksins, og Nastar sem er útflutningsfyrirtæki á fiskmeti. Meðeigandi í Efni er auk þess Eyrir Invest, en félagið er stór hluthafi í Marel.

Í dag er Efni orðið 20 manna fyrirtæki að sögn Heiðu Kristínar. Segir hún fyrirtækið taka þær hugmyndir sem þeim þyki áhugaverðar á Íslandi og finna þeim stað erlendis og nýta til þess tækni með áherslu á markaðsendann.

Þróuðu rekjanleikalausn fyrir fiskafurðir

Heiða Kristín segir í samtali við mbl.is að Efni hafi unnið að Niceland verkefninu í nokkur ár. Hugmyndin sé að búa til vörumerki sem sé þekkt alþjóðlega og fólk treysti. Niceland er núna komið í samstarf við dreifingarfyrirtækið Seattle fish í Bandaríkjunum, en það gefur sig út fyrir að versla við sjálfbæra framleiðendur með sjálfbæra vöru.

Samhliða þessu nýja vörumerki hefur félagið þróað rekjanleikjalausn þar sem opinber gögn, meðal annars frá Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun og útgerðum, eru nýtt og þau tekin saman í greinargóða framsetningu fyrir notandann. Til að byrja með verður hægt að lesa QR kóða af umbúðunum utan um fiskinn og sjá þannig þessar upplýsingar.

Ferlið við skráningu upplýsinga nær allt frá því að fiskurinn …
Ferlið við skráningu upplýsinga nær allt frá því að fiskurinn er veiddur, til vinnslu og síðan flutnings. Ljósmynd/Anton Jónas Illugason

Með þessu segir Heiða Kristín að hægt sé að búa til verðmætari vöru í heimi sem kalli sífellt eftir meiri rekjanleika og upplýsingum um sjálfbæra nýtingu. Segir hún að til framtíðar horfi þau svo á að upplýsingar um hverja vöru verði sjáanlegar á umbúðunum. Niceland mun í samstarfi við Nastar fá fisk víðsvegar af landinu og muni neytendur geta séð hvaðan sá fiskur sem keyptur er komi nákvæmlega.

Dæmi um mögulega framsetningu á því hvernig neytendur geta séð rekjanleika vörunnar má sjá hér.

Merkingin á vörum Niceland, þar sem viðskiptavinir munu geta skannað …
Merkingin á vörum Niceland, þar sem viðskiptavinir munu geta skannað QR kóða til að fá frekari upplýsingar. Til framtíðar er gert ráð fyrir að upplýsingar um innihald hvers og eins pakka séu sérstaklega prentaðar á pakkann. Mynd/Niceland

Heimurinn nógu stór fyrir nokkur gæða vörumerki frá Íslandi

Nýlega var sagt frá því að íslenska þjóðin hefði fengið vörumerkið Icelandic seafood að gjöf frá Framtakssjóði Íslands. Enn hefur ekki nákvæmlega verið greint frá því hvernig það vörumerki verði notað, en ströng skilyrði fylgdu gjöfinni. Átti sú vara og þjónusta sem verður markaðssett undir merkinu að uppfylla ákveðnar gæðakröfur. Spurð hvort Niceland sé ekki að fara á svipaðar slóðir með vörumerki sem eigi að vera regnhlíf fyrir fleiri söluaðila segir Heiða Kristín að heimurinn sé stór og tækifæri fyrir marga til að gera mismunandi hluti.

Oliver Luckett er með þessu skrefi að stíga í nokkuð nýja átt, en hann hefur áður starfað mikið á samfélagsmiðlum og við markaðssetningu fræga fólksins á samfélagsmiðlum, auk annarra tæknifyrirtækja. Flest verkefni hans eiga þó sameiginlegt að þar er horft á alþjóðlega markaðssetningu og er Niceland þar engin undantekning. Oliver er auk þess mikill listaverkasafnari, en hefur undanfarin ár fjárfest í nokkrum verkefnum á vegum Efni hér á landi.

Snyrtivörulína sem er þegar komin í sölu

Meðal annarra verkefna sem Efni vinnur að er snyrtivörulínan Arctic beauty. Vörurnar eru í vinnslu, en Heiða Kristín segir að þróunina aðeins hafa setið á hakanum vegna Niceland verkefnisins. Með Arctic beauty er hugmyndin að koma með vörur sem eru gerðar úr íslenskum hráefnum og byggja undir vörumerkið á erlendri grundu að sögn Heiðu Kristínar. „Margir vita af fallegri náttúru, fótboltaliði eða eldgosum á Íslandi, en það er ekkert endilega tenging við vörur og þjónustu,“ segir Heiða Kristín og bætir við að þau vilji breyta því.

Luckett hefur meðal annars stofnað tæknifyrirtæki sem var selt Disney, …
Luckett hefur meðal annars stofnað tæknifyrirtæki sem var selt Disney, en í kjölfarið var hann samfélagsmiðlastjóri þess fyrirtækis. Þá stofnaði hann einskonar umboðsstofu fyrir frægt fólk og fyrirtæki til að sjá um samfélagsmiðlasíður þeirra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Söluleið í gegnum símann sem verður prufukeyrð á Íslandi

Annað verkefni er appið Hausmart sem gengur út á að búa til greiðslumiðlun á hvaða stað sem er og með hvaða hluti sem er. Heiða Kristín útskýrir hugmyndina þannig að hægt er að taka myndir af hvaða vöru sem er og sett á hana verð. Með því sé í raun búin til búð sem aðrir geti tengst og greitt fyrir vöruna. Nefnir hún að þetta gæti meðal annars verið góð lausn fyrir Airbnb leigusala sem vilji vera með einskonar minibar í íbúðum sem þeir leigi út. Þannig geti þeir keypt inn einhver matvæli eða aðra þjónustu, hvort sem er um að ræða strætómiða eða annað sem taki ferðamenn venjulega talsverðan tíma að finna út hvar eigi að kaupa eða kosti þá meira að kaupa í stökum eintökum.  

„Þetta er í grunninn söluleið í gegnum símann,“ segir hún og bætir við að þau ætli að setja lausnina í notkun hér á landi strax í lok þessa mánaðar. Verður Ísland notað sem eins konar prufumarkaður, en í haust er svo stefnt á markað í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK