Liður í að minnka hlutdeild Símans

Síminn telur ákvörðun PFS vera vonbrigði, en segir hana þó …
Síminn telur ákvörðun PFS vera vonbrigði, en segir hana þó ekki koma á óvart. mbl.is

Síminn telur ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um að leggja níu milljóna króna stjórnvaldssekt á Símann vegna brota Símans á fjölmiðlalögum vera vonbrigði, skaðlega samkeppni á markaði og vinna gegn nýsköpun í íslenskri sjónvarpsframleiðslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síminn sendi fjölmiðlum nú í kvöld. Þar segir að ákvörðun PFS komi þó ekki á óvart. 

„Árum saman hefur PFS látið í það skína hvaða niðurstöðu stofnunin vilji ná fram í málinu. Stofnunin túlkar fjölmiðlalög með allt öðrum hætti en löggjafinn hafði í huga á sínum tíma. Enn fremur hefur PFS áður tekið fram að hún telji það hlutverk sitt að minnka hlutdeild Símasamstæðunnar. Ákvörðunin í dag er klár liður í framkvæmd þeirrar stefnu stofnunarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Í ákvörðun PFS, sem gerð var op­in­ber í dag, seg­ir að Sím­inn hafi brotið gegn fjöl­miðlalög­um með því að beina viðskipt­um viðskipta­manna Sjón­varps Sím­ans að tengdu fjar­skipta­fyr­ir­tæki frá 1. október 2015.

„Í málinu er deilt um skilgreiningu á grundvallaratriði fjölmiðlalaga og það markmið Alþingis að hvetja til nýbreytni í íslenskri sjónvarpsþjónustu. Markaðsráðandi efnisdreifingarfyrirtæki á Íslandi (Vodafone) og opinbert innviðafyrirtæki (Gagnaveita Reykjavíkur innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur) hafa með málinu reynt að fá að taka upp og miðla í hagnaðarskyni en án áhættu sjónvarpsefni sem Síminn hefur fjárfest í og framleitt,“ segir í tilkynningu frá Símanum.

„Hafa félögin einatt átt stuðning PFS vísan í þeirri viðleitni sinni, sem aftur hamlar gerð innlends sjónvarpsefnis. Síminn hefur árum saman óskað eftir sams konar opnum aðgangi að hinum opinberu innviðum Gagnaveitu Reykjavíkur og önnur sveitarfélaganet á landinu veita, til að sinna öllum íslenskum neytendum óháð undirliggjandi fjarskiptanetum. Þeim óskum hefur ávallt verið hafnað af hálfu hinna opinberu aðila, Gagnaveitu Reykjavíkur og Póst- og fjarskiptastofnunar.“

Í samkeppni við stærstu fyrirtæki heims

Í tilkynningunni segir enn fremur að Síminn sé í samkeppni við mörg af stærstu fyrirtækjum heims á markaði fyrir ólínulegt sjónvarpsefni, eins og Apple, Netflix og Google.

„Væri nær að íslensk stjórnvöld leyfðu íslenskum fyrirtækjum að gera það sem þau geta til að taka þátt í þeirri samkeppni í stað þess að sníða íslenskum fyrirtækjum þrengri stakk í alþjóðlegri samkeppni,“ segir í tilkynningunni.

„Síminn mun kynna til leiks nýja sjónvarpsþjónustu í næsta mánuði, svokallaða OTT lausn (e. over the top). PFS er kunnugt um það nýmæli, en hún leysir flest þau vandkvæði íslenskra sjónvarpsneytenda, sem mál þetta snýst um. Hin nýja lausn verður virk á öllum netum, þar með töldum farsímanetum, óháð dreifikerfi eða internetþjónustuaðila.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK