Íslenska ríkið sýknað af 5,3 milljarða kröfu

Þýski bankinn taldi að íslenska ríkið hefði með yfirlýsingu Geirs …
Þýski bankinn taldi að íslenska ríkið hefði með yfirlýsingu Geirs H. Haarde 6. október 2008 lofað að tryggja innstæðu hans hérlendis. mbl.is/Kristinn

Íslenska ríkið hefur í Héraðsdómi Reykjavíkur verið sýknað af tæplega 5,3 milljarða króna kröfu þýska fjármálafyrirtækisins Landesbank Baden-Württemberg (LBBW), en þýska fyrirtækið lánaði Glitni banka hf., síðar Glitni hf., um fimm milljarða króna í ágúst árið 2008.

Af endurgreiðslu lánsins varð aldrei, þar sem íslensku bankarnir féllu í upphafi október og Glitnir tekinn til slitameðferðar, en lánið var svokallað peningamarkaðsinnlán, sem átti að endurgreiða um þremur mánuðum eftir að það var veitt.

Eftir að Glitnir banki féll tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að slík peningamarkaðsinnlán myndu ekki flytjast til Nýja Glitnis banka hf. og að líta ætti á slíkar skuldbindingar sem lánveitingar, þegar gagnaðili væri fjármálafyrirtæki.

LBBW byggði mál sitt hins vegar á því að milljarðarnir fimm hefðu verið innstæða fyrirtækisins í innlendum viðskiptabanka og að íslenska ríkinu bæri að greiða féð til baka. Þetta rökstuddi þýska fyrirtækið með vísan í yfirlýsingu Geirs H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, frá 6. október 2008, þar sem sagði að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu.

Þýski bankinn byggði stefnu sína einnig á því að ákvörðun FME um að skilja peningamarkaðsinnlánið eftir í hinum fallna banka hefði ekki staðist lög og einnig á því að íslenska ríkið væri bótaskylt sökum þess að bótakrafa LBBW á hendur gamla Glitni var felld niður þar sem hún barst of seint.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði öllum kröfum LBBW og féllst á það með íslenska ríkinu að þýski bankinn hefði sýnt af sér tómlæti, þar sem hann hefði ekki haft uppi greiðslukröfu á hendur íslenska ríkinu fyrr en um átta árum eftir að Geir H. Haarde ávarpaði þjóðina. Þá hafi aðrar kröfur þýska fyrirtækisins verið fyrndar er mál þetta var höfðað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK