ISI tvöfaldar verksmiðjuna á Írlandi

Fiskneysla hefur aukist mikið á Írlandi.
Fiskneysla hefur aukist mikið á Írlandi. Ljósmynd/Iceland Seafood

Stjórnendur Iceland Seafood, ISI, hafa ákveðið að tvöfalda stærð Oceanpath, ferskfiskverksmiðju fyrirtækisins í Dublin á Írlandi á þessu ári. Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood, segir í tilkynningu frá félaginu ástæðuna vera söluvöxt og aukna eftirspurn eftir sjávarafurðum hjá írskum neytendum.

Rétt rúmlega fjórir mánuðir eru síðan Iceland Seafood keypti Oceanpath, sem er stærsti framleiðandi og söluaðili ferskra sjávarafurða, til smásöluaðila á Írlandi. Í tilkynningunni segir að ákvörðun stjórnenda Iceland Seafood um tvöföldun á verksmiðju Oceanpath sé í takt við stefnu fyrirtækisins um að fjárfesta í lykilfyrirtækjum sem eru leiðandi í framleiðslu sjávarafurða og auka við verðmætaskapandi starfsemi fyrirtækisins í Evrópu og Norður-Ameríku, eins og það er orðað í tilkynningunni.

Fjölmörg ónýtt tækifæri

Haft er eftir Helga Antoni í fréttinni að enn séu fjölmörg tækifæri ónýtt í virðiskeðjunni svo sem við frekari fullvinnslu og markaðssetningu. „Það eru enn ónýtt tækifæri í því að fylgja fiskinum eftir þegar hann er kominn úr landi með það að markmiði að skapa vöru sem er sérsniðin að kröfum neytenda á hverjum markaði fyrir sig og auka þannig verðmæti vörunnar enn frekar.“

Iceland Seafood greiddi 12,4 milljónir evra, eða 1,5 milljarða íslenskra króna, fyrir 67% hlutafjár Oceanpath í mars sl. Auk þess voru mögulegar árangurstengdar greiðslur að hámarki ein milljón evra. Velta Oceanpath var um 35 milljónir evra á síðasta starfsári eða rúmlega 4,3 milljarðar íslenskra króna.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir