Meirihluti fær aðstoð frá fjölskyldu

Aldur fyrstu kaupenda hefur farið hækkandi síðustu áratugi samkvæmt nýrri könnun Íbúðalánasjóðs sem framkvæmd var af Zenter. Þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign fyrir árið 1970 voru að meðaltali 22 ára og þeir sem keyptu á árunum 1970–1979 voru að meðaltali um 24 ára. Þessi meðalaldur fer svo hækkandi með hverjum áratug og voru þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign eftir síðustu aldamót (2000–2018) að meðaltali um 28 ára gamlir.

Þrátt fyrir að meðalaldur kaupenda á árunum 2000–2018 hafi verið 28 ár var um 41% kaupenda yngri en 25 ára á árunum 2000–2009 en aðeins um 28% kaupenda var undir 25 ára aldri eftir árið 2010. Þessar niðurstöður eru vísbending um að annaðhvort hafi sífellt orðið erfiðara fyrir ungt fólk að koma inn á markaðinn eða fólk kjósi að kaupa sér sína fyrstu fasteign síðar á lífsleiðinni, segir í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Af þeim sem keyptu sína fyrstu fasteign á árunum 1970–1979 skv. fyrrnefndri könnun Íbúðalánasjóðs fengu 38% aðstoð við fjármögnun frá ættingjum og vinum. Næsta áratug þar á eftir eða frá 1980 til 1989 fengu eingöngu um 35% þeirra sem voru að kaupa sína fyrstu fasteign aðstoð frá ættingjum eða vinum en það er lægsta hlutfallið sem mældist í könnuninni.

Árið 2004 hófu bankarnir innreið sína á lánamarkaðinn með látum og buðu allt að 100% lán. Þrátt fyrir það jókst hlutfall þeirra sem fengu aðstoð við fjármögnun fyrstu húsnæðiskaupa í 44% á árunum 2000–2009. Eftir hrun eða á árunum eftir 2010 hefur þetta hlutfall farið upp í 59% og því er ljóst að meirihluti kaupenda fékk aðstoð við sín fyrstu húsnæðiskaup eftir hrun.

Litlar breytingar á ásettu verði

Ásett verð íbúða sem auglýstar eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur nokkurn veginn staðið í stað frá því í janúar síðastliðnum eftir nokkuð skarpt hækkunartímabil frá byrjun árs 2016 til haustmánaða 2017.

Vísitala ásetts verðs á höfuðborgarsvæðinu, sem er mælikvarði hagdeildar Íbúðalánasjóðs á ásett verð íbúða, hefur að meðaltali hækkað um 0,1% á milli mánaða frá febrúar til maí á þessu ári samanborið við 1% meðalhækkun á milli mánaða árið 2017.  Vísitala íbúðaverðs, sem mælir söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, hefur að meðaltali hækkað um 0,5% á milli mánaða það sem af er árinu samanborið við 1,1% meðalhækkun á árinu 2017. Undanfarna 12 mánuði hefur vísitala ásetts verðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 3,1% en vísitala íbúðaverðs um 4,3%.

Minna til sölu á landsbyggðinni

Fjöldi íbúða sem settar eru í sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur heldur farið vaxandi frá því í lok síðasta árs. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum var fjöldi eigna sem komu nýjar inn á markaðinn í aprílmánuði sá mesti síðan í september í fyrra. Ögn dró úr þeim fjölda í maí en þær eru þó 9% fleiri en á sama tíma fyrir ári síðan. Fjöldi eigna sem settar eru í sölu annars staðar á landinu hefur minnkað nokkuð frá því í október síðastliðnum. Í maí fóru alls 34% færri eignir inn á sölu á landsbyggðinni en á sama tíma í fyrra.

Í leigumarkaðskafla skýrslunnar er fjallað um niðurstöður nýjustu könnunar Íbúðalánasjóðs varðandi leigumarkaðinn. Þar kemur m.a. fram að 89% leigjenda telja líklegt eða öruggt að þeir yrðu áfram á leigumarkaði eftir hálft ár og auk þeirra telja 21% þeirra sem eru í foreldrahúsum líkur á að þeir færi sig yfir á leigumarkað á næstu 6 mánuðum.

Íbúðaskuldir aukast um 5,7% að raunvirði

Í lok maí voru íbúðaskuldir heimilanna 5,7% meiri að raunvirði en í sama mánuði árið áður og hefur 12 mánaða hækkun íbúðaskulda að raunvirði ekki verið meiri frá byrjun árs 2010.

Frá því í byrjun árs 2016 hafa heildarskuldir heimilanna með veð í íbúð aukist langmest hjá lífeyrissjóðunum af fjármálastofnunum landsins eða um ríflega 100% að raunvirði.  

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK