Ferðaþjónustan enn spennt fyrir skráningu

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, á ekki von á því að lækkun hlutabréfa í Icelandair á mánudag eigi eftir að draga úr áhuga ferðaþjónustufyrirtækja á skráningu á aðalmarkað eða First North.

Fyrr á árinu sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið nokkur fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa sýnt skráningu áhuga og að hann teldi það aðeins tímaspursmál hvenær fleiri ferðaþjónustufyrirtæki skráðu sig á markað. Icelandair er í dag eina ferðaþjónustufyrirtækið á markaði.

„Það segir sig sjálft að það eru þjóðhagfræðilegir þættir sem hafa áhrif og þeir eru ekki jákvæðir ef þeir draga úr umfangi greinarinnar og vexti hennar. En það breytir því ekki að það er þörf á að skapa stærri og skilvirkari einingar. Og eigi að verða ákveðin hagræðing eða skipulagsbreyting í greininni getur markaðurinn komið sterkur inn,“ segir Páll.

Að sögn Páls á hann ekki von á skráningu úr ferðaþjónustunni á þessu ári en gæti séð það gerast á því næsta. „Það getur verið verulegt hagræði að nýta markaðinn í þessu ferli. Það skiptast á skin og skúrir í þessari grein eins og öðrum, það er eðli allra atvinnugreina,“ segir Páll.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir