Minni hagnaður World Class

Hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir eru helstu eigendur World ...
Hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir eru helstu eigendur World Class. mbl.is/Golli

Tekjur Lauga ehf., félags sem rekur líkamsræktarstöðvar World Class, fóru úr 2,4 milljörðum árið 2016 í tæpa 3 milljarða í fyrra. Það er um 22% aukning á milli ára.

Hagnaður samstæðunnar dróst hins vegar saman um 31%, fór úr 282 milljónum árið 2016 í 193 milljónir 2017. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2017.

Eignir Lauga ehf. námu í árslok 2017 3,9 milljörðum króna sem er ögn hærra en árið 2016. Eigið fé félagsins var 703 milljónir króna um áramótin síðustu, samanborið við 696 milljónir króna ári áður.

Langtímaskuldir félagsins lækkuðu milli ára, en við árslok 2017 stóðu þær í 2,4 milljörðum króna en 2,5 milljörðum ári áður. Skammtímaskuldirnar hækkuðu hins vegar úr 560 milljónum króna í 698 milljónir.

Í ársreikningnum segir að arður verði ekki greiddur til hluthafa fyrir árið 2017.

Eigendur Lauga ehf. eru Hafdís Jónsdóttir með 48,78% hlut, Sigurður Leifsson sem á 26,83% og Björn Kr. Leifsson, framkvæmdastjóri félagsins, með 24,39%.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir