„Ekki heil brú í kröfum Vodafone“

Orri Hauksson forstjóri Símans.
Orri Hauksson forstjóri Símans. Mbl.is/Golli

Lögfræðilega er ekki heil brú í skaðabótakröfum Vodafone á hendur Símanum og hafnar forstjóri Símans, Orri Hauksson, þeim sem gjörsamlega tilhæfulausum. Segir hann að lögfræðilega geti ekki verið heil brú í kröfunum og þær virðast augljóslega settar fram gegn betri vitund.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur Vodafone gert skaðabótakröfur upp að lágmarki 1,9 milljarð króna vegna meintra brota Símans á fjölmiðlalögum. Síminn hyggst kæra níðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar til héraðsdóms en brot Símans fólst í því að beina viðskipt­um viðskipta­manna Sjón­varps Sím­ans að tengdu fjar­skipta­fyr­ir­tæki, allt frá 1. októ­ber 2015.

Samsett mynd

PFS tók sérstaklega fram í úrskurði sínum að Síminn hefði getað komist hjá hinu meinta broti með öðrum hætti en að semja við Vodafone, þ.a. skaði Vodafone getur enginn verið, jafnvel ekki fræðilega. Slík leið, sk. OTT-leið (e. over-the-top), þ.e. sérstök sjónvarpslausn sem hægt er að nýta yfir hvaða internet tengingu sem er, verður einmitt farin á næstu vikum,“ segir í tilkynningu sem Orri sendi mbl.is vegna fréttaflutnings af málinu.

Kemur þar jafnframt fram að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi árið 2015 sett lögbann á Vodafone við ólöglegar upptökur félagsins á efni Símans og miðlun þess til viðskiptavina sinna í hagnaðarskyni. Héraðsdómur staðfesti lögbannið. 

Orri segir í samtali við mbl.is að Vodafone hefði ekki enn verið búið að birta Símanum kröfurnar þegar send hefði verið tilkynning á Kauphöll og fjölmiðla sem sýni hversu lítil alvara sé í kröfunni sjálfri af hálfu Vodafone.

Segir hann að til að bíta höfuðið af skömminni hafi Vodafone sýnt af sér nákvæmlega sömu hegðun árum saman og hið meinta brot Símans snýst um. „Vodafone er í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir áskriftarsjónvarp og sjónvarpsdreifingu á Íslandi og hefur vísvitandi, skv. eigin lagatúlkun, brotið fjölmiðlalög um langa hríð. Krafan, sem Vodafone hefur nú auglýst í fjölmiðlum til þess eins að valda skaða, gæti því ekki verið fáránlegri,“ segir í tilkynningu Orra.

Segir hann loks Vodafone hafa bætt við sig mun fleiri viðskiptavinum en Síminn í IPTV á því tímabili sem Vodafone segist hafa orðið fyrir skaða. „Markaðsráðandi aðila sem dreifir dylgjum og órökstuddum óhróðri um minni keppinaut er augljóslega að misbeita markaðsráðandi stöðu sinni og reyna að valda minni keppinauti skaða. Slíkur skaði hefur þegar orðið, að minnsta kosti að hluta, þar sem eign hluthafa Símans hefur þegar rýrnað í verði við þetta fráleitu árásarsókn markaðsráðandi félags á opinberum vettvangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK