Háar bætur vegna púðursins

Johnson & Johnson hefur alla tíð neitað því að púðrið …
Johnson & Johnson hefur alla tíð neitað því að púðrið geti verið krabbameinsvaldandi. AFP

Snyrtivöruframleiðandinn Johnson & Johnson hefur verið dæmdur til að greiða 22 konum 4,7 milljarða dala, um 506 milljarða króna, í bætur. Konurnar telja að notkun á púðri fyrirtækisins hafi valdið þeim krabbameini í eggjastokkum.

Kviðdómur í Missouri-ríki dæmdi konunum upphaflega 550 milljóna dala bætur en bætti svo við 4,1 milljarði dala.  

Johnson & Johnson berst á mörgum vígstöðvum fyrir dómstólum í um 9.000 kærumálum sem tengjast hinu þekkta púðri fyrirtækisins. Talsmenn þess segja að dómurinn sé mikil vonbrigði og að til standi að áfrýja honum.

Réttarhöldin í Missouri stóðu í sex vikur. Hver konan á fætur annarri sem og ættingjar þeirra báru vitni um það að þær hefðu fengið krabbamein í eggjastokka eftir að hafa notað barnapúðrið og aðrar púðurvörur í áratugi.

Lögmenn kvennanna segja að Johnson & Johnson hafi vitað allt frá áttunda áratugnum að asbest hefði fundist í púðrinu en hefði ekki varað notendur þess við hættunni.

Í frétt BBC um málið segir að fyrirtækið hafi alla tíð neitað því að asbest hefði verið í púðrinu og sömuleiðis að púðrið sé krabbameinsvaldandi.

Skaðabæturnar eru þær mestu sem dómstóll í Bandaríkjunum hefur dæmt fyrirtækið til að greiða í málunum sem tengjast púðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK