Skrá Airbnb-íbúðir áður en vaktin hefst

Heimagistingarvaktin fer á stjá innan skamms.
Heimagistingarvaktin fer á stjá innan skamms. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Skráðum íbúðum í heimagistingu á landinu hefur fjölgað um á annað hundrað síðustu þrjár vikurnar og eru nú 1.427. 16 dagar eru síðan Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, undirrituðu samning um aukið eftirlit með heimagistingu. Samningurinn er hluti af átaki sem ætlað er að hvetja til skráningar á skammtímaútleigum.

Af íbúðunum 1.427 eru 610 í Reykjavík, 151 í nágrannasveitarfélögum borgarinnar og afgangurinn, 666 íbúðir, á landsbyggðinni.

Embætti sýslu­manns­ins á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur aug­lýst störf á heimag­ist­ing­ar­vakt laus til um­sókna en starfsmenn munu hafa eftirlit með því hvort íbúðarhúsnæði, sem leigt er ferðamönnum, hafi til þess starfsleyfi og eins hvort leigusalar standi skil á sköttum. Umsóknarfrestur er til 16. júlí og gert ráð fyrir að vaktmenn taki til starfa stuttu síðar.

Hægt er að fletta upp húsnæði í skráðri heimagistingu á vef sýslumanna.

Ný lög um heimagistingu tóku gildi í júlí í fyrra og var umsóknarferli fyrir heimagistingu þá einfaldað. Þegar lögin tóku gildi voru einungis 610 leyfi fyrir heimagistingu á landinu. Heimagisting er skilgreind sem útleiga á húsnæði, í 90 daga eða skemur á ári, sem annars er íbúðarhúsnæði. Áður þurfti sérstakt starfsleyfi til rekstrarins en slíkt leyfi kostaði í Reykjavík 34.500 krónur og því til viðbótar þurfti að greiða sömu upphæð, 34.500 krónur, í sérstakt eftirlitsgjald. Bæði þessi leyfi eru nú óþörf, en eftir sem áður þarf að greiða 8.560 króna skráningargjald vegna heimagistingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir