WOW air tapaði 2,4 milljörðum í fyrra

Skúli Mogensen forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen forstjóri WOW air. mbl.is/Rax

Tekjur WOW air í fyrra námu 486 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 52 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 58% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og tekjuskatt (EBITDA) var 4 milljónir Bandaríkjadala samanborið við 46 milljónir Bandaríkjadala árið 2016.

Rekstrartap (EBIT) félagsins árið 2017 var 13,5 milljónir Bandaríkjadala samanborið við 30 milljóna Bandaríkjadala hagnað árið 2016. Tap ársins 2017 eftir tekjuskatt var 22 milljónir Bandaríkjadala miðað við 35,5 milljónir Bandaríkjadala hagnað árið áður. Nemur tapið um 2,4 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.

Þá kemur fram að framboðnum sætiskílómetrum hafi fjölgað um 80% og farþegum um 69% á árinu.

Í tilkynningunni segir að árið 2017 hafi einkenndist af auknum kostnaði vegna þessa vaxtar og fjárfestinga. Meðal annars hafi starfsfólki WOW air fjölgað mikið og séu þeir í dag 1.500 samanborið við 1.100 í júlí árið 2017.

Segir að framundan séu áskoranir fyrir félagið. „Horfur fyrir árið 2018 eru ágætar en félagið stendur vissulega frammi fyrir sömu áskorunum og önnur flugfélög með háu olíuverði og óvissu með gengi íslensku krónunnar.“

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur framboð floginna sætiskílómetra aukist um 29% frá sama tíma í fyrra og farþegum fjölgað um 31%, mest í tengifarþegum yfir Atlantshafið sem nú eru um 55% af heildarfjölda farþeganna. Á þessum fyrstu sex mánuðum ársins var 37% vöxtur í tekjum félagsins að því er fram kemur í tilkynningunni. Þá segir að sætanýting hafi verið 91% það sem af er ári.

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, segir í tilkynningunni að síðasta ár hafi verið vonbrigði vegna aukins kostnaðar við vöxt og fjárfestingu, en að hann sé ánægður með árangurinn við uppbygginguna og markaðshlutdeild. „WOW air hefur vaxið og fjárfest gríðarlega síðustu ár en með þessum fjárfestingum höfum við verið að að tryggja langtímahorfur félagsins. Bæði 2015 og 2016 voru mjög góð ár en afkoman fyrir árið 2017 voru vonbrigði þar sem þessi mikli vöxtur og fjárfesting reyndist dýrari en við ætluðum okkur. Ytri aðstæður hafa reynst félaginu krefjandi svo sem hækkandi olíuverð, styrking krónunnar, dýrt rekstrarumhverfi á Íslandi og mikil samkeppni á lykilmörkuðum félagsins.  Árið 2018 einkennist áfram af mikilli uppbyggingu og erum við mjög ánægð með þá markaðshlutdeild sem félagið hefur náð til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið á mjög skömmum tíma. Þetta er öflugur grunnur til að byggja ofan á um ókomna tíð og til að styrkja stoðir félagsins enn frekar en við erum að skoða marga áhugaverða möguleika varðandi langtímafjármögnun félagsins” segir Skúli.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK