Eldri eignir lækka en nýrri hækka

Eldri eignir hafa lækkað aðeins í verði frá áramótum en ...
Eldri eignir hafa lækkað aðeins í verði frá áramótum en nýrri eignir hins vegar hækkað og draga nýju eignirnar áfram heildarhækkunina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er einkum nýtt húsnæði sem skýrir hækkun á fasteignaverði undanfarna mánuði á meðan verð á húsnæði sem er eldra en 10 ára hefur lækkað um 1% frá áramótum. Svipaða sögu er að segja þegar horft er til síðustu 12 mánaða, en þá hafa nýrri eignir hækkað um 17,5% meðan eldri eignir hafa hækkað um 2,3%. Þetta kemur fram í greiningu Arion banka í dag þar sem litið er til húsnæðismarkaðarins.

Greiningardeildin horfir bæði til ásetts verðs og vísitölu íbúaverðs við mat á markaðinum og bendir á að vísitalan fylgi venjulega ásettu verði nokkru seinna. Ásett verð hefur hækkað aðeins síðustu misseri, en greiningardeildin segir að það eigi þó ekki við um allar eignir. Helstu tvær breyturnar sem greiningardeildin segir að skipti máli eru staðsetning og aldur eigna.

Með samanburði á ásettu verði bar greiningardeildin saman byggingar sem eru eldri en 10 ára og svo þær sem eru yngri en tíu ára. Niðurstöðurnar benda til þess að ásett fermetraverð í nýrri byggingum hafi hækkað um 17,5% í nýrri byggingum og 2,3% í eldri byggingum. Á sama tíma hefur vísitala íbúðaverðs fyrir höfuðborgarsvæðið hækkað um 2,9%.

Þegar horft er til ásetts fermetraverðs fjölbýlis frá áramótum á höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 7,7% meðan ásett fermetraverð eldri bygginga hefur lækkað um 1%. Vísitala íbúðaverðs fyrir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur á sama tíma hækkað um 2,4%.

Miðað við þetta er virðist vera sem það sé aðallega hækkun á fermetraverði nýrra bygginga sem hækkar íbúðaverð.

Þá bendir greiningardeildin á að ásett fermetraverð í nýjum byggingum sé að meðaltali 555 þúsund krónur, en 459 þúsund í eldri byggingum. Hefur munurinn á fermetraverði farið úr 56-60 þúsund í október 2013 upp í 97-114 þúsund krónur í dag og því hækkað um 50%-100% á tímabilinu. Nýtt húsnæði er því að verða hlutfallslega dýrara en áður og er fermetraverð í nýbyggingum um 20% hærra en í eldra húsnæði.

„Niðurstaða okkar athugana á ásettu verði bendir til þess að það sé fyrst og fremst nýtt húsnæði á markaðinum sem skýrir hækkun fasteignaverðs að undanförnu. Ef það er rétt þá má leiða að því líkum að það sé fyrst og fremst vegna þess að kaupendur greiða sífellt meira fyrir þau gæði sem felast í nýju húsnæði umfram eldra, sem leitt hefur hækkun markaðarins, en ekki endilega að íbúðir í heild sinni séu verðmætari,“ segir að lokum í greiningu bankans.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir