Enginn dómur enn fallið um kröfugerð SSP

Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun í Hafnarfirði. Ljósmynd/Valitor

Valitor sendi frá sér fréttatilkynningu í dag, þar sem fyrirtækið ítrekar að enginn dómur hafi enn fallið um kröfur Sunshine Press Productions (SSP) og Datacell á hendur Valitor. Það segir Valitor vera kjarna málsins.

Mál SSP og Datacell á hendur Valitor er rekið fyrir héraðsdómi, en beiðni Valitor um að dómkvaðningu tveggja matsmanna til að meta fjártjón fyrirtækjanna var í dag hafnað fyrir Landsrétti.

Fyrirtækin tvö krefja Valitor samanlagt um rúma 8 milljarða króna í bætur, fyrir að hafa lokað greiðslugátt þeirra fyrir Wikileaks í 617 daga.

Fram kemur í fréttatilkynningu Valitor að um 95% krafna félaganna komi frá SSP, sem hafi „aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor“.

„Athygli vekur að félag, sem aldrei hefur haft nema hverfandi tekjur, geri engu að síður milljarða kröfur á hendur fyrirtækinu. Valitor hefur allt frá upphafi og ítrekað hafnað því að nokkur grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP,“ segir í tilkynningu Valitor.

Valitor segir að því fari fjarri að félögin hafi hafi ekki getað safnað fé fyrir Wikileaks eftir að greiðslugáttinni var lokað, enda hafi félögin sjálf bent á aðrar leiðir til að gefa fé til Wikileaks, s.s. með rafmynd, millifærslum á bankareikning og með PayPal.

„Forsvarsmaður Wikileaks hefur meira að segja greint frá því að samtökin hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna lokunarinnar heldur stórgrætt, þar sem þau hafi orðið að taka við bitcoin gjaldmiðlinum þess í stað, en verðmæti hans hefur aukist gríðarlega síðan þá,“ segir í tilkynningu Valitor, en þar einnig bent á að á þriðja hundrað evrópskir færsluhirðar veiti áþekka þjónustu og Valitor.

„Þannig er enn algerlega óútskýrt af hálfu þessara félaga hvernig það geti valdið þeim margra milljarða tjóni að ein greiðsluleið af mörgum lokist tímabundið og hlýtur kröfugerðin á hendur Valitor að skoðast í því ljósi. Valitor mun verjast þessum meintu kröfum í dómssölum þegar þar að kemur og hefur fulla trú á málsvörn sinni til sýknu,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir