Farið í framkvæmdina af brýnni neyð

Starfsmenn Kalkþörungavinnslunnar á Bíldudal að störfum. Fyrirtækið hefur um árabil …
Starfsmenn Kalkþörungavinnslunnar á Bíldudal að störfum. Fyrirtækið hefur um árabil útvegað starfsfólki sínu húsnæði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ískalk á Bíldudal hefur um árabil útvegað starfsfólki sínu húsnæði, bæði með því að aðstoða starfsfólk við að finna sér húsnæði á svæðinu og eins með því að leigja því húsnæði í eigu félagsins. Á þeim tíma hefur aldrei komið upp ágreiningur milli starfsmanna og fyrirtækisins eða starfsmenn sent tilkynningar til stéttarfélaga. Þá hefur félagið aukinheldur aldrei brotið á réttindum starfsmanna sinna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kalkþörungafélaginu sem er ósátt við að hafa blandast með myndrænum hætti í fréttaflutning þar sem ASÍ varar við hættu sem starfsfólki fyrirtækja, sem býr í húsnæði í eigu vinnuveitandans, kunni að vera búin.

„Vaxandi umsvif í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum hefur [sic] á síðustu árum verið langt umfram framboð á vinnuafli og tiltæku húsnæði á svæðinu, hvort sem er til leigu eða kaups. Til að manna starfsemi verksmiðjunnar á Bíldudal hefur félagið í vaxandi mæli orðið að leita starfsfólks utan svæðisins, bæði í öðrum landsfjórðungum og erlendis. Nær ómögulegt hefur reynst að ráða aðkomufólk nema að því tilskyldu [sic] að fyrirtækið útvegaði húsnæði,“ segir í tilkynningunni.

Þetta hafi fyrirtækið gert með kaupum á tveimur íbúðarhúsum á Bíldudal, auk þess sem stundum hafi húsnæði verið tekið á skammtímaleigu. „Í þessum tilvikum hafa starfsmenn leigt af félaginu og í sumum tilvikum hafa þeir síðan keypt eigið húsnæði þegar tækifæri hefur gefist og ákvörðun verið tekin að fjölskylda viðkomandi kæmi einnig vestur til að setjast að í sveitarfélaginu.“

Félagið bjóði hagkvæmt leiguverð sem sé langt undir því verði sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu og þetta sé m.a. ástæða þess að félaginu haldist nokkuð vel á góðu starfsfólki. Eins og staðan sé á húsnæðismarkaði á sunnanverðum Vestfjörðum, séu íbúðir félagsins eðli málsins samkvæmt hins vegar eingöngu ætlaðar starfsfólki félagsins. Enda sé ætlunin ekki „að gerast leigusali á almennum markaði“. 

Þó að nýja húsnæðið sem Kalkþörungafélagið tók í notkun í síðustu viku sé það fyrsta sem byggt hefur verið á Bíldudal í tæpa þrjá áratugi og fyrirtækið sé stolt af byggingaframtakinu hafi engu að síður verið ráðist í framkvæmdina af brýnni neyð. Ákjósanlegra væri að sveitarfélögin réðust í framkvæmdir sem þessar þar sem skortur myndist á íbúðarhúsnæði samfara vaxandi atvinnustarfsemi og þörf fyrir fleira starfsfólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK