Selur fjórðungshlut í Eimskip

Yucaipa, sem var stærsti hluthafi Eimskips, hefur selt 25,3% hlut ...
Yucaipa, sem var stærsti hluthafi Eimskips, hefur selt 25,3% hlut sinn í félaginu. Mynd/Eimskip

Bandaríska fjárfestingafélagið The Yucaipa Company sem fór með rúmlega fjórðungshlut í Eimskip í gegnum tvö dótturfélög sín hefur selt alla hluti sína í félaginu. Nemur söluverðmætið 11,1 milljarði króna.

Í nóvember á síðasta ári kom fram að félagið væri að leggja mat á stöðu sína sem hluthafi í Eimskip og að skoða sölu. Hafði félagið verið meðal lánardrottna Eimskips í endurskipulagningu félagsins árið 2009. Þá átti Yucaipa 32%, en árið 2012 seldi það 7% hluti til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Samkvæmt síðasta hluthafalista Eimskips átti Yucaipa 25,3% hlut í félaginu í gegnum dótturfélögin Yucaipa American Alliance Fund (15,25%) og Yupaipa American Alliance (Parallel)  Fund II, LP (10,05%). Seldu bæði félögin alla sína hluti.

Viðskiptin með hlutafé í félaginu fóru fram á genginu 220 krónur á hlut, en skráð gengi samkvæmt Kauphöllinni er 201 króna á hlut. Ekki kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar hver kaupandinn sé.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir