Mótmæla stórfelldum hækkunum

Ferðamenn í Skaftafelli. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru ósátt við hækkun …
Ferðamenn í Skaftafelli. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru ósátt við hækkun þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Brynjar Gauti

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) mótmæla hækkun þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum, sem þau segja hafa verið hækkuð án fyrirvara og án nokkurs samráðs við samtökin.

Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að nýtilkynntar hækkanir á þjónustugjöldum innan Vatnajökulsþjóðgarðs nái allt að 80% og sýni algjört „skilningsleysi á starfsumhverfi og markaðsaðstæðum ferðaþjónustuaðila“. Skammt sé síðan þjónustugjöld innan þjóðgarðsins á Þingvöllum hafi verið hækkuð um allt að 50% og í báðum tilfellum hafi verið tilkynnt um hækkanirnar „fyrirvaralaust og án samráðs við hagsmunaaðila“.

„Það er með öllu ótækt að slíkar hækkanir séu tilkynntar fyrirvaralaust á sama tíma og samráðshópur ríkisstjórnarinnar, SAF og Sambands íslenskra sveitarfélaga um heildargreiningu á, og framtíðarskipan gjaldtöku opinberra aðila af ferðaþjónustu er að störfum á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála,“ segir í tilkynningunni. Eðlilegt sé að ákvörðunum um hækkun gjalda eða nýja gjaldtöku á vettvangi ferðaþjónustu sé frestað a.m.k. þar til tillögur samráðshópsins liggja fyrir.

Samtökin minna á að núverandi ríkisstjórn hafi lagt áherslu á aukið samráð og samtal um málefni ferðaþjónustunnar. Hækkanir og aðdragandi þeirra sé í fullkomnu ósamræmi við þá stefnu og því krefjist SAS þess að hækkanirnar séu dregnar til baka og sambærilegum áformum frestað „á meðan áhersla er lögð á það samráð um heildarskipan gjaldtöku af ferðaþjónustu sem þegar er hafið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK