Mótmæla stórfelldum hækkunum

Ferðamenn í Skaftafelli. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru ósátt við hækkun ...
Ferðamenn í Skaftafelli. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru ósátt við hækkun þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Brynjar Gauti

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) mótmæla hækkun þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum, sem þau segja hafa verið hækkuð án fyrirvara og án nokkurs samráðs við samtökin.

Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að nýtilkynntar hækkanir á þjónustugjöldum innan Vatnajökulsþjóðgarðs nái allt að 80% og sýni algjört „skilningsleysi á starfsumhverfi og markaðsaðstæðum ferðaþjónustuaðila“. Skammt sé síðan þjónustugjöld innan þjóðgarðsins á Þingvöllum hafi verið hækkuð um allt að 50% og í báðum tilfellum hafi verið tilkynnt um hækkanirnar „fyrirvaralaust og án samráðs við hagsmunaaðila“.

„Það er með öllu ótækt að slíkar hækkanir séu tilkynntar fyrirvaralaust á sama tíma og samráðshópur ríkisstjórnarinnar, SAF og Sambands íslenskra sveitarfélaga um heildargreiningu á, og framtíðarskipan gjaldtöku opinberra aðila af ferðaþjónustu er að störfum á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála,“ segir í tilkynningunni. Eðlilegt sé að ákvörðunum um hækkun gjalda eða nýja gjaldtöku á vettvangi ferðaþjónustu sé frestað a.m.k. þar til tillögur samráðshópsins liggja fyrir.

Samtökin minna á að núverandi ríkisstjórn hafi lagt áherslu á aukið samráð og samtal um málefni ferðaþjónustunnar. Hækkanir og aðdragandi þeirra sé í fullkomnu ósamræmi við þá stefnu og því krefjist SAS þess að hækkanirnar séu dregnar til baka og sambærilegum áformum frestað „á meðan áhersla er lögð á það samráð um heildarskipan gjaldtöku af ferðaþjónustu sem þegar er hafið.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir