Hagnaður Ryanair dregst saman um 22%

AFP

Hagnaður írska flugfélagsins Ryanair dróst saman um 22% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi og segja stjórnendur flugfélagsins að helstu skýringarnar séu hækkandi eldsneytisverð og launahækkanir flugmanna.

Hagnaður eftir skatta nam 309,2 milljónum evra á fyrstu þremur mánuðum rekstrarársins, apríl til júní. Í uppgjörinu kemur fram að kostnaður vegna starfsmanna jókst um 34% á milli ára og helsta ástæðan er 20% launahækkun flugmanna. Aðrir starfsmenn fyrirtækisins hafa fengið um 3% launahækkun á milli ára. Útlit er fyrir að hluti flugáhafna Ryanair fari í verkfall í vikunni vegna óánægju með kjör sín. Hefur 16 flugferðum verið aflýst á morgun vegna þessa. Á miðvikudag og fimmtudag hefur 600 flugferðum verið aflýst vegna verkfalla flugáhafna í Portúgal, á Spáni og í Belgíu.

Jafnframt hafi hækkun á eldsneytisverði haft mikil áhrif en verð á olíutunnunni hefur hækkað úr 50 Bandaríkjadölum í tæplega 80 dali á milli ára.

Farþegum Ryanair fjölgaði um 7% á tímabilinu og voru þeir alls 37,6 milljónir á fyrstu þremur mánuðum ársins. Tekjur jukust um 9% og voru tæplega 2,1 milljarður evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK