Lán til byggingafélaga dragast saman um helming

Útlán til fyrirtækja í byggingarstarfsemi drógust saman um helming á …
Útlán til fyrirtækja í byggingarstarfsemi drógust saman um helming á fyrstu sex mánuðum ársins. mbl.is/Golli

Ný útlán, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafa dregist saman um tæplega helming, ef borinn er saman fyrri helmingur ársins við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands er snúa að nýjum útlánum innlánsstofnana.

Í júní námu ný útlán til fyrirtækja í byggingarstarfsemi 2,6 milljörðum króna, en til samanburðar námu ný útlán í júní í fyrra 3,6 milljörðum króna.

Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur verið lánað til byggingafyrirtækja fyrir 8,0 milljarða króna, miðað við 15,4 milljarða króna á sama tímabili árið 2017.

HB Grandi skekkir tölurnar

Ný útlán til fiskveiðifyrirtækja fóru úr því að vera neikvæð um 110 milljónir króna á fyrri helmingi ársins 2017, í 24 milljarða króna það sem af er þessu ári. Í maí síðastliðnum voru útlán til fiskveiðifyrirtækja tæplega 22 milljarðar króna.

Í lok apríl var tilkynnt að útgerðarfyrirtækið Brim hefði samið um kaup á 34,1% hlut í HB Granda á 21,7 milljarða króna. Því má ætla að ný útlán í maí til fiskveiðifyrirtækja hafi að mestu farið í að lána fyrir umræddum kaupum.

Ný útlán til fyrirtækja í landbúnaði jukust um tæp 40% miðað við sama tímabil í fyrra og námu einum milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Fyrirtæki í iðnaði fengu lánaða frá innlánsstofnunum 17,2 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 15,6 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2017.

Ný útlán til flutninga- og samgöngufyrirtækja nema 7,6 milljörðum króna það sem af er ári, miðað við 9,6 milljarða króna í fyrra. Það er samdráttur um 21% milli tímabila.

Ný útlán jukust um 7%

Ný útlán í heild að frádregnum upp- og umframgreiðslum námu 187 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins, eða um 11,5 milljörðum meira en á sama tímabili í fyrra.

Ný lán til heimila jukust um 6,6% milli tímabila. Íbúðalán með breytilegum vöxtum drógust saman um 6% á meðan íbúðalán með föstum vöxtum jukust um rúmlega 64%, úr 13,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra, í 21,8 milljarða í ár.

Bílalán til heimila jukust einnig milli tímabila en á fyrri helmingi ársins voru ný bílalán í kringum 6,9 milljarðar króna, samanborið við 6,6 milljarða króna í fyrra.

Eignir innlánsstofnana námu 3.599 milljörðum króna í lok júní og hafa aukist um 179 milljarða frá áramótum. Innlendar eignir námu tæpum 3.200 milljörðum króna og erlendar eignir um 400 milljörðum.

Eigið fé innlánsstofnana nam 616 milljörðum króna í lok júní og hafði það aukist um 5,5 milljarða í þeim mánuði.

Ekki óvænt

„Þetta kemur kannski ekki endilega á óvart,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Við höfum heyrt fréttir af því að hægt hafi á uppbyggingu ferðaþjónustu, til dæmis hóteluppbyggingu. Það gæti skýrt þetta að einhverju leyti. Það er minni vöxtur í þessum geira en áður, enda hefur verið heilmikil uppbygging á síðustu árum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK