Afkoma flugfélaganna afar misjöfn

Grafík/mbl.is

Nýverið sendi flugfélagið WOW air frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að tekjur félagsins hefðu aukist um 58% á nýliðnu ári, samanborið við árið 2016. Í tilkynningunni segir Skúli Mogensen, eigandi félagsins og forstjóri, að rekstrarniðurstaða ársins hafi hins vegar valdið vonbrigðum en félagið tapaði 22 milljónum dollara, jafnvirði 2,5 milljarða króna, miðað við núverandi gengi dollars gagnvart íslensku krónunni (105 kr.).

„[...] afkoman fyrir árið 2017 var vonbrigði þar sem þessi mikli vöxtur og fjárfesting reyndist dýrari en við ætluðum okkur. Ytri aðstæður hafa reynst félaginu krefjandi svo sem hækkandi olíuverð, styrking krónunnar, dýrt rekstrarumhverfi á Íslandi og mikil samkeppni á lykilmörkuðum félagsins,“ sagði Skúli í fyrrnefndri tilkynningu. Á síðasta ári skilaði Icelandair Group hins vegar 38 milljóna dollara hagnaði, jafnvirði tæplega 4 milljarða króna. Því reyndist mismunurinn á hagnaði félaganna tveggja ríflega 6,5 milljarðar á árinu 2017.

ViðskiptaMogginn hefur tekið saman helstu kennitölur úr rekstri WOW air og Icelandair Group á síðasta ári. Þar sem ársreikningur fyrrnefnda félagsins hefur ekki verið birtur opinberlega er hins vegar ekki mögulegt að gera fullburða samanburð á félögunum, einkum þeim þáttum sem lúta að efnahagsreikningi þeirra. Í þessum samanburði kemur fram að tekjur Icelandair Group námu 1.420 milljónum dollara í fyrra, jafnvirði 149 milljarða króna. Tekjur WOW yfir sama tímabil námu 486 milljónum dollara, jafnvirði 51 milljarðs króna. Í þeim samanburði verður að taka tillit til þess að rekstur Icelandair Group er mun fjölþættari en WOW air og felur m.a. í sér rekstur fjölda hótela um land allt, flutningastarfsemi, innanlandsflug og margt fleira.

Gríðarlegur vöxtur hjá WOW

Á síðasta ári flutti Icelandair 4 milljónir farþega og fjölgaði þeim um 10% milli ára. WOW air flutti yfir sama tímabil 2,8 milljónir farþega og fjölgaði þeim um 69% frá fyrra ári. Rekstrarniðurstaða félaganna tveggja fyrir fjármagnskostnað og skatta (EBIT) var einnig með ólíku sniði á síðasta ári. Þannig reyndist hann neikvæður sem nam 14 milljónum dollara hjá WOW air, jafnvirði tæplega 1,5 milljarða króna. Rekstrarhagnaðurinn reyndist 50 milljónir dollara hjá Icelandair, jafnvirði ríflega 5,2 milljarða króna.

EBIT-hlutfallið var neikvætt sem nam 2,8% hjá WOW air en jákvætt um 3,5% hjá Icelandair.

EBITDA, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta, nam 4 milljónum dollara hjá WOW air, jafnvirði 420 milljóna króna. EBITDA hjá Icelandair reyndist ríflega 170 milljónir dollara, jafnvirði 17,8 milljarða króna. Það skilaði Icelandair EBITDA-hlutfalli upp á 12% en samsvarandi hlutfall hjá WOW air nam 0,8%.

Samkvæmt fréttatilkynningu WOW air frá því um miðjan júlí kemur fram að eiginfjárhlutfall félagsins hafi numið 10,9% um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall Icelandair stóð í 41,8% á sama tíma.

Stórar áskoranir áfram

Í fyrrnefndri tilkynningu benti Skúli á að WOW air hefði vaxið gríðarlega hin síðustu ár og að miklar fjárfestingar væru til þess gerðar að tryggja framtíðarhorfur félagsins.

Félagið hefur ekki birt opinberlega rekstrarniðurstöðu sína fyrir fyrri hluta þessa árs. Það hefur Icelandair hins vegar gert og vitna þær tölur um mjög erfitt rekstrarumhverfi. Þannig hefur félagið fært niður EBITDA-spá sína fyrir árið 2018 sem nemur 30% og hefur það haft verulega neikvæð áhrif á gengi félagsins í Kauphöllinni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK