Kínverjar undirbúa frekari tolla

AFP

Viðskiptaráðuneyti Kína hefur tilkynnt að það hafi í hyggju að leggja 25% innflutningstoll á bandarískar vörur að andvirði 1.700 milljarða króna á ári. BBC greinir frá.

Aðgerðin, sem er svar við tollalagningu bandarískra stjórnvalda, mun taka gildi á sama tíma og tollar bandarískra stjórnvalda á kínverskar vörur að sama virði taka gildi, 23. ágúst.

Meðal þess sem Kínverjar hyggjast tollaleggja eru kol, olía, efni og lækningatæki. Í síðasta mánuði lögðu bandarísk stjórnvöld 25% tolla á kínverskan innflutning að andvirði 34 milljarða bandaríkjadala (um 3.600 milljarða króna) og hafa Bandaríkjamenn skoðað að leggja tolla á 200 milljarða bandaríkjadala innflutning til viðbótar.

Stjórnvöld saka hvor önnur um óréttlæti

Kínastjórn hefur kallað tolla Bandaríkjastjórnar „dæmigerðan yfirgang“ og sagt aðgerðirnar ógna heimsmarkaðnum auk þess að skaða hagsmuni bandarískra fyrirtækja og almennings.

Bandaríkjaforseti segir hins vegar að Bandaríkin hafi um árabil verið beitt órétti í viðskiptum við Kína, en hann hefur einnig sakað Evrópusambandið um hið sama. Þá hefur hann rökstutt tollalagningar á Kínverja með vísan til hugverkastulds kínverskra fyrirtækja. Í úttekt bandaríska viðskiptaráðuneytisins frá í fyrra er metið að hugverkastuldur Kínverja kosti Bandaríkjamenn á bilinu 225 til 600 milljarða bandaríkjadala á ári, um 25.000-65.000 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK