Fyrstu íbúðakaup hafa ekki verið fleiri frá hruni

Í júní seldust um 14% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu ...
Í júní seldust um 14% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrstu íbúðakaup voru samtals 905 talsins á öðrum ársfjórðungi í ár og hafa þau ekki verið fleiri á einum ársfjórðungi í að minnsta kosti 10 ár. 26% allra íbúðakaupa á öðrum ársfjórðungi voru fyrstu kaup og hefur þetta hlutfall ekki verið hærra frá hruni. Hlutfallslega flest fyrstu kaup voru á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Suðurnesjum þar sem meira en 30% allra íbúðakaupa á öðrum ársfjórðungi voru fyrstu kaup.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Í júní seldust um 14% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði. Íbúðakaup yfir ásettu verði hafa ekki verið hlutfallslega fleiri, samanborið við heildarfjölda viðskipta, síðan í júlí 2017. Miðgildi kaupverðs í kaupsamningum var um 45 milljónir króna í júní en miðgildi ásetts verðs í fasteignaauglýsingum var um 48 milljónir króna.

Sérbýli hækkar meira en fjölbýli

Verð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið kipp undanfarna mánuði. Á meðan fjölbýli hefur hækkað í verði um 3,7% undanfarna 12 mánuði hefur sérbýli hækkað um 9,3% á sama tímabili. Þetta er viðsnúningur frá því sem áður var því frá janúar 2012 til maí 2017 hækkaði fjölbýli samtals 21% meira í verði en sérbýli.

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 2,4% á milli mánaða í júní. Þetta er mesta lækkun vísitölunnar milli mánaða síðan mælingar hófust árið 2011. Leiguverð hefur þó almennt farið hækkandi undanfarið ár en 12 mánaða hækkun vísitölu leiguverðs mælist nú 7,0%.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir