IKEA opnar sína fyrstu verslun á Indlandi

IKEA vonast til þess að ná til vaxandi millistéttar á ...
IKEA vonast til þess að ná til vaxandi millistéttar á Indlandi. AFP

Sænski húsgagnarisinn IKEA hefur opnað verslun á Indlandi. Hann hefur hingað til verið hikandi við að fara inn á indverskan markað en hefur nú fjárfest um 1,5 milljörðum dala, um 160 milljörðum ISK, í að koma sér fyrir.

Verslunin er á rúmlega fimm hektara svæði í Hyderabad á Suður-Indlandi og landsvæði í þéttbýli á Indlandi er nokkuð dýrt.

Eins og segir í umfjöllun BBC  um málið getur brugðið til beggja vona með rekstur IKEA á Indlandi. Svæðið getur verið mjög gróðavænlegur markaður þar sem indversk millistétt hefur sífellt meiri kaupmátt.

Viðskiptaumhverfi á Indlandi ólíkt öðrum

Á móti kemur að Indverjar eru sagðir erfiðir viðskiptavinir með strangar kröfur um gæði og verð. Að auki er vinnuafl ódýrt á Indlandi þannig að sparnaður við að setja húsgögnin saman heima er ekki eins mikill og annars staðar.

IKEA mun því bjóða upp á uppsetningarþjónustu í meiri mæli á Indlandi en annars staðar. Verslunarkeðjan kemur líka til móts við indverska staðarhætti með því að hafa kjötbollurnar frægu ekki úr nauta- eða svínakjöti heldur kjúklingi og grænmeti.

Það er mikil fátækt á Indlandi þannig að IKEA gengur ekki að því vísu eins og víða annars staðar að fólk taki fyrirtækinu fagnandi. Sumir vita ekki hvað IKEA er og margir hafa furðað sig á stórri blárri skemmu sem birtist skyndilega.

Vildu ekki stunda viðskipti á Indlandi strax

IKEA var lengi að stofna verslun á Indlandi af ýmsum ástæðum. Áður töldu þeir markaðinn ekki hæfa rekstrinum og mátu það svo að áhættan borgaði sig ekki. Árið 2012 var lögum um erlenda fjárfestingu breytt á Indlandi, sem olli því að IKEA hóf loks undirbúning fyrir alvöru.

IKEA á sér lengri sögu á öðrum asískum mörkuðum. Í Japan stofnuðu þeir búð 1974 sem þeir lokuðu 1987 en opnuðu svo aftur 2006. Í Kína hafa þeir rekið fjölda verslana síðan 1998. Í Taílandi og Suður-Kóreu hafa þeir stofnað verslanir fyrst á allra síðustu árum.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir