Nýr forstjóri Air France-KLM

AFP

Talið er að stjórn Air France-KLM muni kynna nýjan forstjóra flugfélagsins til leiks á stjórnarfundi á morgun. Franska dagblaðið Liberation greinir frá því að framkvæmdastjóri þess í Kanada, Benjamin Smith, muni hreppa hnossið.

Fransk-hollenska flugfélagið hefur verið að leita að nýjum forstjóra frá því í maí er Jean-Marc Janaillac sagði af sér í kjölfar kjaraviðræðna við starfsmenn. Hann lagði starfið að veði til þess að reyna að fá starfsmenn til að samþykkja nýjan kjarasamning eftir verkföll mánuðina á undan.

Ef næsti forstjóri verður kanadískur er það í fyrsta skipti sem forstjóri flugfélagsins er ekki franskur. Air France-KLM hefur ekki viljað staðfesta ráðningu Smith í dag og segir ekki tímabært að fjalla um mögulegan forstjóra að svo stöddu.

Smith leiddi kjaraviðræður við flugmenn og flugliða áður en félagið setti á laggirnar Air Canada Rouge sem sérhæfir sig í lágum fargjöldum. Gerður var samningur til tíu ára við stéttarfélög þeirra. Sú reynsla er talin hafa haft mikil áhrif á ákvörðun Air France-KLM um að ráða hann sem forstjóra samsteypunnar. 

Janaillac hafði boðið starfsmönnum 7% launahækkun á fjórum árum og að hann myndi láta af störfum ef tilboðið yrði ekki samþykkt. Aðeins 55% greiddu atkvæði gegn tillögunni og taldist samningurinn því felldur og Janaillac tapaði starfinu.

Smith hóf störf innan fluggeirans árið 1990 hjá Air Ontario og síðar setti hann á laggirnar eigin ferðaskrifstofu. 

Hlutabréf Air France hafa lækkað um rúm 35% í verði frá því í upphafi árs en dregið hefur úr verðlækkunum síðan Janaillac lét af störfum. Áætlanir benda til þess að verkföll, í alls 15 daga, á tímabilinu febrúar til júní hafi kostað félagið 335 milljónir evra. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 109 milljónum evra sem er umtalsverð lækkun á milli ára en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 593 milljónum evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK