Reginn hagnast um 1,5 milljarða

Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins ehf.
Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins ehf. Eggert Jóhannesson

Hagnaður fasteignafélagsins Regins á fyrri hluta ársins nam 1.492 milljónum króna og er svipaður og á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 1.512 milljónum. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar fasteignasafnsins hækkaði hins vegar um 15% og var 2.387 milljónir, samanborið við 2.083 milljónir á fyrri hluta síðasta árs.

Rekstrartekjur Regins hf. námu á fyrri hluta ársins 3.788 milljónum og jukust um 14% frá því á sama tímabili í fyrra. Rekstrarkostnaður nam 1.212 milljónum og hækkaði um 150 milljónir frá í fyrra.

Matsbreyting fjárfestingareigna var 1.277 milljónir samanborið við 1.237 milljónir í fyrra. Bókfært virði fasteigna í eigu félagsins nam í lok tímabilsins 101,9 milljörðum.

Reginn á 116 eignir, meðal annars Smáralind, Egilshöll og fasteignir við Hafnartorg. Heildarfermetrafjöldi þeirra er um 325 þúsund fermetrar. Það sem af er ári hafa sjö eignir verið seldar og þá hefur félagið keypt eina eign við Garðatorg.

Fyrr á árinu var skrifað undir samkomulag um kaup á eignum FAST-1 slhf., en stærstu eignir þess eru turninn við Höfðatorg og Borgartún 8-16.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir