Deilibílalausn fyrir ferðamenn á Íslandi

Stofnendur Koride. Frá vinstri: Michelle Spinei, Kristinn Evertsson og Bjarki …
Stofnendur Koride. Frá vinstri: Michelle Spinei, Kristinn Evertsson og Bjarki Viðarsson. mbl.is/Þór Steinarsson

„Koride er leið fyrir ferðamenn til að tengjast á auðveldan hátt og sjá nákvæmlega hverjir vilja fara hvert. Þú getur á einfaldan hátt fundið ferðafélaga og gengið frá praktískum málum,“ segir Kristinn Evertsson, einn af stofnendum Koride, í samtali við mbl.is.

Þau Michelle Spinei, Bjarki Viðarsson og Kristinn Evertsson koma að sprotafyrirtækinu Koride og kynntu það sem „deilibílalausn fyrir ævintýragjarna ferðamenn á Íslandi“ á fjárfestadegi Startup Reykjavik í dag. Í kynningunni kom fram að Koride sé þó ekki einungis leið til að koma ferðamönnum milli áfangastaða heldur tæki til þess að upplifa ferðalagið á annan hátt.

„Þetta virkar þannig að þú skráir þig inn á vefsíðu og sérð hvaða ferðir eru í boði. Þar getur þú séð ferðir sem eru vinsælar, t.d. hjá fólki sem hefur gaman af fjallgöngum eða skoðunarferðum. Þá getur þú búið til ferð og óskað eftir ferðafélögum,“ útskýrir Kristinn.

 „Allt á einum stað“

Koride er hugsað fyrir ferðamenn sem vilja deila upplifun sinni með öðrum ferðamönnum og auðveldar þeim að ákveða áfangastaði, velja ferðamáta og ganga frá kostnaði. Koride á bæði að nýtast þeim ferðamönnum sem eru einir á ferð en vilja hitta annað fólk og þeim hópum ferðamanna sem vilja hitta fleiri ferðalanga.

„Þú getur í raun skipulagt ferðina, hvert verður farið og hvar verður gist, borgað ferðakostnað og skipt honum. Allt á einum stað,“ segir Kristinn. Hann segir fólk aðallega leysa slíka hluti á samfélagsmiðlum í dag en Koride verði einhvers staðar á milli þess að vera samfélagsmiðill og vettvangur fyrir deililausnir.

Fyrsta útgáfa í haust

„Til að byrja með verður þetta vefsíða, sem verður þægilegt að nota á snjalltækjum, og svo í framhaldinu verður þetta app,“ segir Kristinn að lokum. Fyrsta útgáfa vefsíðunnar er væntanleg í loftið í lok október.

Frá fjárfestadegi Startup Reykjavik 2018.
Frá fjárfestadegi Startup Reykjavik 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK