Forsetinn gaf frumkvöðlum heillaráð

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, gaf frumkvöðlum heillaráð.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, gaf frumkvöðlum heillaráð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárfestadagur Startup Reykjavik var haldinn í sjöunda sinn í morgun í höfuðstöðvum Arion banka þar sem níu sprotafyrirtæki kynntu viðskiptahugmyndir sínar fyrir innlendum og erlendum fjárfestum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hóf daginn með því að gefa frumkvöðlum tvö heillaráð fyrir komandi áskoranir.

Ekki hægt að setja verðmiða á ástríðu

„Settu þér óraunhæf markmið,“ var fyrsta ráð Guðna. „Ef þér mistekst að ná þeim markmiðum, settu þér þá raunhæf markmið,“ var seinna ráð forsetans.

„Það sem áður þótti óraunhæft verður raunhæft ef maður leggur sig nógu mikið fram,“ bætti hann við.

Guðni talaði einnig um mikilvægi þess að hafa ástríðu fyrir því sem maður tekur sér fyrir hendur og að ástríða auki líkurnar á því að maður nái markmiðum sínum. „Það er ekki hægt að setja verðmiða á ástríðu,“ sagði Guðni einnig.

Það var góð mæting í höfuðstöðvar Arion banka í morgun.
Það var góð mæting í höfuðstöðvar Arion banka í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðeins 9 af 270 valin til þátttöku

Fjárfestadagurinn markar lok Startup Reykjavik 2018. Viðskiptahraðallinn er samstarfsverkefni Arion banka og Icelandic Startups. Alls sóttu 270 fyrirtæki um þátttöku í ár en einungis níu voru valin í þetta skipti. Fjárfestarnir Tommy Andersen og Monica Dodi komu til landsins til að taka þátt í fjárfestadeginum.

Jarþrúður Ásmundsdóttir, forstjóri Icelandic Startups.
Jarþrúður Ásmundsdóttir, forstjóri Icelandic Startups. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tommy Andersen er framkvæmdarstjóri og meðeigandi hjá danska fjárfestingasjóðnum byFounders auk þess að vera formaður samtaka danskra frumkvöðla á vegum danska ríkisins sem aðstoðar unga frumkvöðla.

Monica Dodi er framkvæmdastjóri og meðstofnandi fjárfestingasjóðsins Women‘s Venture Capital Fund, sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum stofnuðum af konum. Hún hefur unnið sem stjórnandi hjá fyrirtækjum á borð við MTV Europe, Walt Disney og AOL meðal annarra.

Sprotafyrirtækin sem voru valin til þáttöku í ár:

Anymaker

Stafrænt stúdíó frá Svíþjóð sem framleiðir þrívíddarhugbúnað ætlaðan börnum.

Ekki banka

Þjónusta sem hjálpar fólki að gera meira úr peningunum sínum.

Huginn.care

Skýjalausn, fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem ætlað er að einfalda atvika- og dagbókaskráningar skjólstæðinga í umönnun.

Konvolut

Hugbúnaðarlausn sem gerir einstaklingum og lögaðilum mögulegt að stofna til viðskipta á örfáum mínútum með sjálfvirknivæðingu á ýmsum viðskiptaferlum.

Koride

Deilibílalausn fyrir ævintýragjarna ferðamenn á Íslandi.

Leiguskjól

Fjártæknifyrirtæki sem býr til nýjar lausnir fyrir leigumarkað.

LiveLine

Hugbúnaðarfyrirtæki sem gerir einstaklingum kleift að nálgast eigin heilsufarsgögn á einfaldan hátt í rauntíma.

Sea Data Center

Tæknilausn sem byggir á einstökum gagnagrunni og ætlað er að auka virði viðskipta meðal fyrirtækja í sjávarútvegi.

Unify Me

Tæknilausn frá Barcelona sem gerir fyrirtækjum kleift að eiga öll innri samskipti á einum stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK