Sækja í dýrari vörur en áður

Salan í veiðiverslunum hefur sjaldan verið meiri.
Salan í veiðiverslunum hefur sjaldan verið meiri. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Nóg er að gera í veiðivöruverslunum landsins og sögðu þeir verslunarmenn sem ViðskiptaMogginn ræddi við að salan hefði sjaldan eða aldrei gengið svona vel.

Haukur Jóhannesson hjá Veiðivon segir undanfarinn áratug hafa einkennst af sveiflum. „Árin fyrir hrun var mikil keyrsla og allt sem keypt var inn seldist jafnóðum. Svo kom stutt skeið eftir hrun þar sem menn fóru hálfpartinn í felur og vildu ekki flíka því sem þeir áttu með því að kaupa dýran veiðibúnað. Tímabilið 2010 til 2014 var erfitt en síðan tók salan að glæðast jafnt og þétt.“

Kaupa bestu merkin

Ólafur Vigfússon, verslunarmaður í Veiðihorninu, segir að í hruninu hafi þurft að bregðast hratt við, breyta vöruúrvalinu og leggja meiri áherslu á ódýrari veiðibúnað. Með því að halda verði niðri hafi tekist að halda ágætum dampi og hafi verslunin notið góðs af því að margir notuðu árin eftir hrun til að eiga ánægjulegar samverustundir innanlands með fjölskyldunni. „Við sáum að fjölskyldufólki fjölgaði í búðinni. Í stað þess að endurnýja jeppann eða fara í frí til Spánar vildi fólk eyða tímanum á Íslandi og t.d. fara með börnin í veiðitúr. Mig grunar að mjög margir nýir veiðimenn hafi orðið til á þessum tíma.“

Ólafur segir ekki bara líflegt í búðinni um þessar mundir heldur sæki viðskiptavinirnir í dýrari vörur. „Ástandið í efnahagslífinu er gott og sprenging í sölu á öllum vandaðri búnaði.“

Þrátt fyrir efnahagsuppsveiflu virðist ekki vera neinn „2007-bragur“ á stangveiðisportinu og segir Ólafur að íslenskir stang- og skotveiðimenn séu upp til hópa ósköp venjulegt meðal- og hátekjufólk. „Þannig hefur það verið í hundrað ár, en í góðærinu festist þessi óskemmtilegi stimpill við laxveiðina vegna umfjöllunar um lúxusveiðiferðir á vegum stórfyrirtækja sem voru samt sem áður fátíðar þrátt fyrir að vera mikið á milli tannanna á fólki.“

Veiðihornið selur bæði stang- og skotveiðibúnað og segir Ólafur að salan sé með besta móti í báðum deildum. „Skotveiðisportið er mun fámennara. Áætla má að um 6-8.000 Íslendingar stundi skotveiði að einhverju marki en sennilega eru um 100.000 stangveiðimenn í landinu. Aftur á móti getur búnaðurinn fyrir skotveiðina verið dýrari, svo að fleiri krónur koma í kassann við hverja sölu.“

Veðrið og boltinn hafa ekki truflað

Ingólfur Kolbeinsson, eigandi Vesturrastar, segir líka þá breytingu hafa orðið á skotveiði hér á landi að skytturnar æfi sig allt árið um kring. „Salan er orðin jafnari frekar en að vera bundin við haustið og iðkendur nota skotæfingasvæðin þegar veður leyfir til að stunda leirdúfuskotfimi eða æfa riffilskotfimi.“

Það kemur Ingólfi á óvart hve vel sala á veiðibúnaði hefur gengið það sem af er þessu. „Bæði var heimsmeistaramótið í knattspyrnu haldið í sumar og ekki hefur viðrað vel. Fyrir fjórum árum hefðu þessir tveir þættir haft mikil áhrif hér í versluninni en þeir virðast ekki skemma fyrir okkur í dag og áhugavert er til þess að hugsa hvernig salan hefði þá orðið ef veðrið hefði verið betra og ekkert heimsmeistaramót.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK