Vilja nútímavæða sjávarútveginn

Bjarni Rúnar Heimisson, Anna Björk Theodórsdóttir og dr. Jón Þrándur ...
Bjarni Rúnar Heimisson, Anna Björk Theodórsdóttir og dr. Jón Þrándur Stefánsson. mbl.is/Þór Steinarsson

„Sjávarútvegurinn hefur verið tiltölulega íhaldssöm atvinnugrein og hefur ekki tileinkað sér aðferðafræði sem hefur þekkst í fjármálakerfinu undanfarna áratugi. Við erum að reyna að koma þannig hugsun og aðferðafræði inn í sjávarútveginn,“ segir dr. Jón Þrándur Stefánsson, stjórnarformaður Sea Data Center, í samtali við mbl.is.

Sea Data Center er eitt þeirra sprotafyrirtækja sem var valið til þátttöku í Startup Reykjavik í ár og fékk að kynna viðskiptahugmynd sína fyrir fjárfestum í dag. Fyrirtækinu er ætlað að auka virði viðskipta meðal fyrirtækja í sjávarútvegi með því að miðla upplýsingum úr sérstökum gagnagrunni. Að Sea Data Center koma þau Anna Björk Theodórsdóttir, Bjarni Rúnar Heimisson og dr. Jón Þrándur Stefánsson.

Hugmyndin að fyrirtækinu varð til árið 2012 en hefur þróast og tekið breytingum síðan þá. Vinna við að koma henni í núverandi mynd hófst árið 2014.

„En grunnhugsunin hefur alltaf verið mjög skýr. Að setja fram markaðsupplýsingar fyrir sjávarútveg á greinargóðan og skilmerkilegan hátt til þess að auka gagnsæi í greininni,“ segir Jón Þrándur.

Bloomberg fyrir sjávarútveginn

Aðstandendur Sea Data Center segjast ætla að gera það fyrir sjávarútveginn sem Bloomberg gerði fyrir fjármálageirann. Um hundrað viðskiptavinir, bæði innlendir og erlendir, hafa nú þegar skráð sig í áskrift á vefsíðu fyrirtækisins.

„Allar fjármálastofnanir eru með upplýsingamiðstöð frá Bloomberg (e. Bloomberg terminal), sem sýnir upplýsingar um hreyfingar á fjármálamörkuðum í rauntíma. Kaup á verð- og hlutabréfum og svo framvegis. Þetta er notað í ákvörðunartökum, við kaup og sölu bréfa t.d.,“ útskýrir Jón Þrándur og segir að Sea Data Center muni á sama hátt miðla upplýsingum sem varða sjávarútveg.

„Við erum að einblína á að rýna í tölulegar upplýsingar sem eru til staðar til þess að fá réttar markaðsupplýsingar og miðla þeim eins mikið í rauntíma og hægt er,“ bætir hann við.

Mun nýtast ýmsum aðilum

Jón Þrándur segir að upplýsingarnar muni nýtast fleirum en þeim sem starfa í sjávarútvegi. Hann telur að bankar og önnur fjármálafyrirtæki geti nýtt sér gagnagrunninn til að fylgjast með þróun í sjávarútvegi og áhrifum hennar á t.d. lánasöfn.

„Það fer allt eftir því hvaða upplýsingum þú ert að leita að. Ef við tökum dæmi um þá sem veiða og vinna fisk, þá geta þeir séð hvert þeir hafa verið að selja afurðir, hvaða vörutegundir er hagkvæmast að framleiða og á hvaða markaði best sé að flytja afurðina,“ segir Jón Þrándur.

„Þeir sem eru aftar í keðjunni, t.d. miðlarar, sjá hver markaðsþróun er á tilteknum markaði. Hvaðan sé hagkvæmast að kaupa vörur og hvert sé best að selja þær,“ bætir hann við.

Frá fjárfestadegi Startup Reykjavik 2018.
Frá fjárfestadegi Startup Reykjavik 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir