Leiga hækkar umfram kaupverð

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli júní og júlí, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,2% og verð á sérbýli um 0,8%. Verð á fjölbýli hefur hækkað um 3,8% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 8,9%. Árshækkun húsnæðisverðs nemur 5,2% og er óbreytt frá því í júní. Árshækkunin var 4,6% í maí.

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,9% í júlí eftir að hafa lækkað um 2,4% í júní. Leiguverð samkvæmt þinglýstum leigusamningum var því örlítið lægra í júlí en í maí. Leiguverð hefur hækkað um 8,3% frá því í júlí í fyrra, segir í hagsjá Landsbankans.

Kaupverð hefur hækkað um rúm 40% á þremur árum

„Árshækkun verðs á fjölbýli var 3,8% og því hefur leiguverð íbúða hækkað meira en kaupverð síðustu 12 mánuði. Það er nokkur breyting frá síðustu árum, að saman dragi með þróun leiguverðs og kaupverðs. Sé litið á tveggja ára breytingu hefur leiguverð hækkað um 21,3% og kaupverð um 23,4%. Þriggja ára breyting kaupverðs er 40,1% og leiguverðs 32,4%.

Þjóðskrá birti nýlega tölur um ávöxtun húsaleigu. Þjóðskrá gefur upp ávöxtunartölur fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki sem leigusala. Einstaklingar voru lengi vel ríkjandi sem leigusalar en í kjölfar fjármálakreppunnar urðu fjármálastofnanir töluvert stórir aðilar á leigumarkaði. Fjármálastofnanir eru nú nær horfnar af markaðnum og hafa leigufélög unnið mikið á í markaðshlutdeild síðustu ár. Síðasta ár, frá miðju ári 2017 fram á mitt ár 2018, voru einstaklingar með 57% hlutdeild á markaði fyrir leiguíbúðir, en voru 74% á árinu 2011. Fyrirtæki voru með 41% hlutdeild í ár miðað við 19% á árinu 2011,“ segir enn fremur í hagsjá.

Sé litið á þróun síðustu ára hefur ávöxtun yfirleitt farið lækkandi frá árinu 2014, en hún hafði hækkað mikið fram til þess tíma. Þetta gildir bæði um 2ja og 3ja herbergja íbúðir. Þá var ávöxtun í bæjum eins og Akureyri, Akranesi og Selfossi hærri á tímum en gerðist t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þessi munur hefur minnkað mikið og nú er ávöxtunin alls staðar á bilinu 6-7%. Hafa ber í huga að einu breyturnar í þessum útreikningum eru upphæð húsaleigu og fasteignamat viðkomandi eignar þannig að báðir þessir þættir geta valdið breytingum.

Hagsjá Landsbankans í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK