Hækkandi launakostnaður þrengir að rekstrinum

Skúli Rósantsson í Casa segir heilbrigða samkeppni og sterkara gengi …
Skúli Rósantsson í Casa segir heilbrigða samkeppni og sterkara gengi hafa stuðlað að lægra verði. Sala yfir netið hefur gengið vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala húsgagna gengur ágætlega en gæti goldið fyrir það ef hægir á fasteignamarkaði. Verð hefur verið á niðurleið og kaupmáttur almennings á uppleið en launakostnaður er farinn að þrengja að rekstri verslana. Þetta segja húsgagnasalar sem blaðamaður ræddi við.

Egill Fannar Reynisson er framkvæmdastjóri GER-innflutnings sem rekur verslanir Húsgagnahallarinnar, Betra baks og Dorma og að auki GER-heildverslun sem einkum sinnir hótelmarkaðinum. Hann segir hreyfingar á fasteignamarkaði hafa hvað mest áhrif á sölu húsgagna en aðrir þættir geti líka ráðið þróuninni: „Þetta ár hefur verið prýðilegt heilt á litið en salan hefur þó róast með sumrinu og skýringin er hugsanlega að landsmenn eru duglegri að ferðast til útlanda og velja jafnvel ferðalög fram yfir að ráðast í stærri fjárfestingar fyrir heimilið.“

Leður og merkjavara sækja á

Að mati Egils virðast neytendur vera farnir að sækja í ögn vandaðri og dýrari vörur. „Sem dæmi hefur sala á leðursófum aukist á kostnað sófa með tauáklæði sem alla jafna eru ódýrari. Fólk leyfir sér líka að kaupa merkjavöru, og sækir almennt meira í vandaðri húsgögn hvort heldur er fyrir stofuna eða svefnherbergið.“

Greina má mun á hegðun ólíkra aldurshópa, og ástæðan líkast til að algengara er að húsnæðiskostnaður unga fólksins sé hlutfallslega hærri, og fleiri þeirra á leigumarkaði. „Neytendahópurinn 25-35 ára býr oft í skammtímahúsnæði og er ef til vill þess vegna ekki á þeim buxunum að kaupa húsgögn sem þau vilja eiga lengi. Þessi aldurshópur kaupir vissulega húsgögn, en leitar í ódýrari kostinn.“

Athygli vekur að allir aldurshópar virðast kjósa að staðgreiða húsgögnin. „Jafnvel ef við bjóðum vaxtalausar raðgreiðslur þá er fólk ekki að nýta sér það. Mig grunar að neytendur hafi lært í hruninu að þeim þyki gott að hafa allt sitt á hreinu, og taka ekki neina áhættu með það að eiga örugglega fyrir öllum reikningum um mánaðamótin.“

Egill álítur að húsgagnamarkaðurinn hafi náð jafnvægi. „Við virðumst vera að nálgast 3-5% vöxt árlega, sem er ekki mikil söluaukning en þætti eðlileg þróun í öðrum löndum. Á sama tíma standa verslanir aftur á móti frammi fyrir ört hækkandi launakostnaði og þó svo að núna standi yfir góðæristímabil má finna merki um að handan við hornið sé meira krefjandi tímabil. Í verslunum okkar förum við því mjög varlega þegar kemur að því að bæta við fólki og ef starfsmenn söðla um þá skoðum við mjög vandlega hvort við getum komist af án þess að ráða nýja manneskju í staðinn.“

Margir með góðan kaupmátt

Skúli Rósantsson, eigandi Casa, hefur svipaða sögu að segja og Egill. „Ástandið er eðlilegt og gott, og ekkert rugl í gangi eins og var árið 2007.“

Reksturinn hjá Skúla hefur vaxið töluvert á undanförnum árum. Fyrir tíu árum voru verslanirnar tvær: stór aðalverslun í Skeifunni og minni gjafavöruverslun í Kringlunni, en núna rekur fyrirtækið einnig Casa gjafavöruverslun á Glerártorgi á Akureyri, verslun Duka í Smáralind og Kringlunni, og Ittala-búð í Kringlunni. Skúli segir þessa aukningu í umsvifum hafa verið til þess gerða að ná fram stærðarhagkvæmni í rekstrinum.

„Við tókum líka í notkun vandaða netverslun fyrir tveimur árum og hefur hún gefið okkur mikla viðbótarveltu. Það eru einkum minni vörur sem við seljum yfir netið en margir heimsækja vefsíðuna fyrst til að skoða dýrari vöruna og koma svo í verslunina til að sjá með eigin augum og ganga frá kaupunum,“ segir Skúli og tekur undir að notendavæn netverslun hjálpi t.d. til við að ná betur til fólks á landsbyggðinni. „En svo eru sumir sem einfaldlega finnst hentugra að panta húsgögn og húsmuni yfir netið og t.d. fengum við einu sinni pöntun úr Fellsmúlanum sem er innan við hundrað metra frá Casa-búðinni.“

Skúli segir hægt að greina það á viðskiptavinum að kaupmáttur hins dæmigerða neytanda er fjarskagóður um þessar mundir. „Þar spila saman hækkandi laun, sterkari króna og lækkað verð á húsgögnum. Samkeppnin er hörð og heilbrigð, og hjá fyrirtækjum eins og okkar er stærðarhagkvæmnin að skila sér til viðskiptavina.“

Aðspurður hvort hann sjái blikur á lofti kveðst Skúli einkum kvíða harðvítugum kjaradeilum. „Það er staðreynd að ákveðinn hópur fólks hefur ekki notið sömu kjarabóta og allur þorri landsmanna, og þörf á inngripum til að bæta stöðu þeirra, en það væri engum til góða ef kjarabaráttan leiðir til verkfalla, líkt og sumir óttast.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK