Icelandair geti tekist á við stöðuna

Björgólfur Jóhannsson var gestur Kastljóss á RÚV í kvöld.
Björgólfur Jóhannsson var gestur Kastljóss á RÚV í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessar ákvarðanir eru teknar á minni vakt. Að því leytinu til ber ég ábyrgð, þar sem ég er yfirmaður félagsins og ber ábyrgð á allri starfsemi félagsins gagnvart stjórn. Í ljósi þessa alls ákvað ég að draga mig í hlé og í raun að gefa félaginu færi á að vinna úr þeim málum sem er verið að vinna í,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, í Kastljósinu á RÚV í kvöld.

Í yfirlýsingu Icelandair frá því í gær lýsti Björgólfur því yfir að breytingar sem gerðar voru á sölu- og markaðsstarfi félagsins hefðu ekki gengið sem skyldi. Í Kastljósi sagði hann að hugmyndin að breytingunni hefði verið ágæt, en eftirfylgnin ekki gengið sem skyldi, en þessi mistök ollu misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.

Hann sagði í viðtalinu í kvöld að félagið væri vel í stakk búið til að takast á við niðursveiflu í rekstri, þar sem efnahagurinn væri sterkur og peningaleg staða sömuleiðis og að hann væri stoltur af stöðunni sem Icelandair er í núna. Jafnframt sagði hann að staða WOW air annars vegar og Icelandair hins vegar væri gjörólík og að honum þætti það svolítið ósanngjarn samanburður að tala um stöðu félaganna í sömu andrá.

„Mér sýnist á kynningum þeirra að staða þeirra sé kannski ekki alveg í takt við það sem við erum með,“ sagði Björgólfur og vísaði til fjárkynningar WOW air, sem leitar nú fjármagns frá erlendum fjárfestum með skuldabréfaútgáfu.

Samkeppniseftirlitið hefði „töluverða skoðun“

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, sagði í samtali við mbl.is í dag að áhugavert væri að velta því fyrir sér hvort vandræði íslensku flugfélaganna myndu leiða til þess að þau sameinuðust, fyrr en síðar.  

Sigríður Hagalín Björnsdóttir þáttastjórnandi spurði Björgólf út í þessar vangaveltur. „Ég hef ekkert mikla trú á því,“ sagði Björgólfur þá og bætti við að hann reiknaði ekki með að það væri heimilt og að Samkeppniseftirlitið myndi hafa „töluverða skoðun“ á því ef það kæmi til tals.

„Enda er það mín skoðun að þessi félög geti alveg unnið á markaði saman,“ sagði Björgólfur, en hann sagði að það væri mikilvægt að bæði félög birtu upplýsingar fyrir allan almenning, sem væri að kaupa flugmiða og þyrfti að vera viss um að félögin væru starfhæf langt fram í tímann.

Björgólfur sagðist jafnframt hafa trú á því að hlutabréfastaða Icelandair Group í dag, endurspeglaði ekki raunverulegt virði félagsins, en hlutabréf í félaginu lækkuðu í dag um 17,26%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK