Óbreyttir vextir

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála verður 3,6% hagvöxtur í ár eins og í fyrra. Þetta er aðeins meiri vöxtur en bankinn gerði ráð fyrir í maí. Stafar það einkum af því að framlag utanríkisviðskipta er hagstæðara og vegur það þyngra en hægari vöxtur þjóðarútgjalda. Áfram eru horfur á að dragi úr hagvexti með hægari vexti útflutnings og innlendrar eftirspurnar. Þróun íbúðaverðs og vísbendingar af vinnumarkaði benda í sömu átt.

Verðbólga var 2,3% á öðrum fjórðungi ársins en hafði aukist í 2,7% í júlí. Verðbólga án húsnæðis hefur einnig aukist og munurinn milli mælikvarða á verðbólgu með og án húsnæðis hefur minnkað mikið. Áfram dregur úr árshækkun húsnæðisverðs en gagnstæð áhrif gengisbreytinga krónunnar á verðbólguna hafa dvínað og eldsneytisverð hefur hækkað. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram á næstunni. Gengi krónunnar hefur lækkað aðeins frá síðasta fundi peningastefnunefndar en gjaldeyrismarkaðurinn hefur áfram verið í ágætu jafnvægi, segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

„Vísbendingar eru um að langtímaverðbólguvæntingar hafi farið eitthvað yfir markmið. Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Meginvextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir í 4,25% frá októberbyrjun 2017 en raunvextir bankans hafa lækkað áfram. Þeir voru 1,3% miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingar til eins árs (0,2 prósentum lægri en í maí) en 1,5% miðað við verðbólgu sl. tólf mánuði (0,4 prósentum lægri en í maí). 

Fyrirkomulagi bindiskyldu lánastofnana í Seðlabankanum var breytt í byrjun júní þannig að hún skiptist í tvo hluta, annars vegar fasta 1% bindingu sem ber enga vexti og hins vegar 1% bindingu af sama tagi og verið hefur sem ber um þessar mundir 4% vexti.

Breytingin átti ekki að hafa áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar og ekki er hægt að greina merki um að hún hafi haft áhrif á markaðsvexti eða þróun á fjármálamörkuðum.

Samkvæmt könnun Seðlabankans í ágúst vænta markaðsaðilar þess að meginvöxtum bankans verði haldið óbreyttum í 4,25% næstu tvö ár, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK