4,6 milljóna evra hagnaður

Hagnaður Eimskips á öðrum ársfjórðungi nam 4,6 milljónum evra, sem samsvarar um 577 milljónum kr. Hagnaðurinn á sama tíma í fyrra nam 4,9 milljónum evra. Tekjur námu 172,6 milljónum evra (um 21 milljarði kr.), hækkuðu um 1,1% frá öðrum ársfjórðungi 2017.

Afkomuspá fyrir árið 2018 er óbreytt á bilinu 57 til 63 milljónir evra en samkvæmt fyrirliggjandi forsendum liggur afkoman frá neðri mörkum að miðgildi bilsins, að því er segir í tilkynningu.

  • EBITDA nam 14,9 milljónum evra, dróst saman um 1,8 milljónir evra frá Q2 2017
  • Hagnaður nam 4,6 milljónum evra samanborið við 4,9 milljóna evra hagnað Q2 2017
  • Eiginfjárhlutfall var 49,7% og nettóskuldir námu 128,8 milljónum evra í lok júní

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir í tilkynningu að eftir krefjandi fyrsta ársfjórðung ársins 2018 hafi afkoma annars ársfjórðungs verið meira í takt við væntingar félagsins.

Fjárfest í nýju siglingakerfi

„Félagið fjárfesti í nýju vikulegu siglingakerfi með því að bæta tveimur skipum við og er því að fara í gegnum umbreytingarferli. Það mun taka tíma að byggja upp magn fyrir vikulega þjónustu en við erum bjartsýn á áætlanir okkar og útlitið varðandi bókanir er jákvætt, fyrir inn- og útflutning til og frá Íslandi, í Trans-Atlantic og Short-Sea. Á öðrum ársfjórðungi hófust flutningar fyrir nýja verksmiðju PCC á Húsavík sem eykur flutningsmagn á gráu línunni sem sinnir strandsiglingum við Ísland. Í ágúst tryggði félagið aukið magn frá Bretlandi í gegnum nýjan viðskiptavin sem mun m.a. flæða inn á gráu línuna. Flutningsmagn í Trans-Atlantic á grænu línunni á milli Norður-Ameríku og Norður-Evrópu/Skandinavíu heldur áfram að aukast og nam vöxtur í flutningsmagni um 44% á öðrum ársfjórðungi,“ segir Gylfi m.a. í tilkynningunni.

Aukning þrátt fyrir samdrátt í innflutningi á bílum

„Magn á öðrum ársfjórðungi ársins í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst í takt við okkar væntingar eða um 2,9% samanborið við sama tímabil í fyrra. Magnaukningin er drifin áfram af 6,3% vexti í gámaskipakerfinu tengt Trans-Atlantic flutningum og Íslandi og Færeyjum, þrátt fyrir samdrátt í innflutningi á bílum til Íslands. Tekjur af áætlunarsiglingum námu 115,9 milljónum evra og drógust saman um 1,4% samanborið við sama tímabil í fyrra, sem skýrist að mestu vegna gengishreyfinga, samdráttar í tekjum í Noregi og lægri tekjum af innfluttum bílum til Íslands. EBITDA af áætlunarsiglingum nam 10,2 milljónum evra samanborið við 11,8 milljónir evra í fyrra,“ segir Gylfi enn fremur. 

Þá segir, að til að koma til móts við þarfir markaðarins hafi félagið hafið í ágúst siglingar á nýjar hafnir í Póllandi og í Litháen á meðan makrílvertíð á Íslandi standi yfir. Nýsmíðar félagsins á tveimur sérhæfðum gámaskipum, sem hvort um sig er 2.150 gámaeiningar, ganga samkvæmt áætlun og búist er við að þau verði afhent um mitt næsta ár. Fyrirhugað samstarf félagsins og Royal Arctic Line er til umsagnar hjá Samkeppniseftirlitinu. Eimskip keypti í ágúst 51% hlut í rekstrarfélaginu Tromsø Terminalen í Noregi sem starfrækir 7.000 tonna frystigeymslu í Tromsø sem þjónustar sjávarútveginn. Félagið hyggur á að byggja stærri frystigeymslu í Tromsø. Á fyrri helmingi ársins útvíkkaði félagið þjónustunet sitt með því að opna skrifstofur í Kaupmannahöfn og á Las Palmas.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK