Argentína hækkar stýrivextina í 60%

Argentínski seðlabankinn bregst við falli pesóans með stýrivaxtahækkun. Mynd frá ...
Argentínski seðlabankinn bregst við falli pesóans með stýrivaxtahækkun. Mynd frá Buenos Aires. AFP

Seðlabanki Argentínu hækkaði í dag stýrivexti sína upp í 60%, til þess að reyna að koma í veg fyrir frekara hrun argentínska pesóans. Áður voru stýrivextirnir 45%.

Gengi pesóans féll um nærri 7% gagnvart Bandaríkjadal í gær og við opnun markaða í Argentínu í morgun féll hann um nærri 4% til viðbótar, þrátt fyrir að í gær hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) samþykkt að flýta greiðslum á 50 milljarða Bandaríkjadala láni til ríkisins og lýst yfir stuðningi við þær aðgerðir sem ríkið hyggst grípa til í erfiðum efnahagsaðstæðum.

Marcos Pena, æðsti ráðamaður ríkisstjórnar Argentínu, sagði í dag að efnahagsstefna Mauricio Macri, forseta landsins, væri ekki misheppnuð. „Þetta er umbreytingaskeið,“ sagði Pena og bætti við að á umbreytingaskeiðum væru stundum erfiðleikar.

Hann sagði Argentínu vera það land á heimsvísu sem hefði oftast hlaupist undan alþjóðlegum skuldbindingum sínum, logið og svikið lánardrottna sína. Nú sé hins vegar komið nýtt skeið, þar sem Argentína vilji ná jafnvægi í ríkisbúskapinn og treysta á eigin auðlindir.

Pesóinn hefur hríðfallið undanfarið.
Pesóinn hefur hríðfallið undanfarið. AFP

Pena sagði einnig að vandræði gjaldmiðilsins um þessar mundir mætti rekja til „kerfislægra veikleika“ sem hefðu komið í ljós í kjölfar mikilla þurrka sem höfðu áhrif á landbúnaðarframsleiðslu ríkisins, en útflutningur á landbúnaðarvörum hefur mest að segja um flæði erlends gjaldeyris til Argentínu.

Þá minntist hann einnig á að breytt landslag í alþjóðaviðskiptum hefði slæm áhrif, ekki síst spennan í samskiptum Bandaríkjanna og Kína.

Í skiptum fyrir lán AGS hefur ríkisstjórnin skuldbundið sig til þess að koma fjárlagahallanum niður í 2,7% af landsframleiðslu á þessu ári og allt niður 1,3% á næsta ári, en í fyrra var argentínska ríkið rekið með 3,9% halla.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir