Ekki vitað nóg um skuldabréfaútboð WOW

Að mati Kristjáns Sigurjónssonar eru enn til staðar óþekktar breytur ...
Að mati Kristjáns Sigurjónssonar eru enn til staðar óþekktar breytur sem geta haft áhrif á framhald skuldabréfaútboð WOW. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er náttúrulega ánægjulegt að undirtektirnar séu þó þetta góðar, en það vantar enn þá í sjálfu sér upplýsingar um hversu stór hluti þetta er og hvort þetta séu margir eða nokkrir,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, í samtali við mbl.is um að fjárfestar hafa sýnt skuldabréfaútboði WOW air áhuga.

Að mati Kristjáns eru enn til staðar óþekktar breytur sem geta haft áhrif á framhald málsins. „Það er talað um milljarða í höfn í fyrirsögnum, en það er auðvitað spurning hvort seljist upp allt, eða það að þátttakan verði nógu góð,“ segir Kristján og vísar til þess að sumir þátttakendur í skuldabréfaútboði WOW gætu gert þá kröfu að aðkoma þeirra ráðist af því hvort takist að klára útboðið.

„Maður vonar það að þetta gangi allt að óskum og að félagið komist á flug á ný,“ bætir hann við.

Hærri vextir vegna aðstæðna

Fram hefur komið að gert er ráð fyrir að skuldabréf WOW munu bera níu prósent vexti og er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW, að kjörin séu „ásættanleg miðað við markaðsaðstæður“. Þá er einnig sagt frá því að þeir sem taka þátt í skuldabréfaútboði félagsins öðlist kauprétt að hluta­fé í flug­fé­lag­inu á gengi sem verður 20 pró­sent­um lægra en skrán­ing­ar­gengi fé­lags­ins.

Túristi segir frá því að til samanburðar hafi SAS nýverið gefið út skuldabéf fyrir 750 milljónir sænskra króna, andvirði 8,8 milljarða íslenskra króna, og bera bréfin 4,75 prósenta vexti. Bréfin voru óveðtryggð sem þýðir að kaupendur skuldabréfa SAS fengu enga sambærilega kaupauka og hugsanlegir kaupendur skuldabréfa WOW.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir