Búa sig undir það versta

Royal Bank of Scotland (RBS).
Royal Bank of Scotland (RBS). AFP

Bankastjóri Royal Bank of Scotland, Ross McEwan, segir að bankinn sé setja á laggirnar nýtt útibú í Amsterdam til þess að þjóna viðskiptavinum í Evrópu og að bankinn búi sig undir það versta vegna Brexit. 

Að sögn McEwan er beðið eftir leyfi frá fjármálaeftirlitinu áður en hægt verður að hefja starfsemi í Amsterdam. 

Ekki liggur fyrir hvað samningur ESB og Breta muni fela í sér og óttast ýmsir að illa muni ganga að ná þar saman. McEwan segir að ef ekki verði af samningi eigi RBS á hættu að glata viðskiptavinum. 

McEwan segir að RBS hafi þegar flutt 150 starfsmenn til Amsterdam og ef viðskiptabankaleyfið verður ekki í höfn áður en Bretland gengur úr ESB þá geti bankinn ekki veitt hluta af viðskiptavinum sínum þá þjónustu sem honum ber að veita.

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, varaði við því á föstudag að þrætan um landamæri Írlands og Norður-Írlands gæti enn orðið til þess að koma í veg fyrir að samkomulag næðist.

Sagði Barnier brýna þörf á því að finna lausn svo að landamærin myndu ekki lokast eftir að Bretar ganga úr sambandinu í maí á næsta ári, en hann lét ummæli sín falla eftir að hafa fundað í Brussel með Dominic Raab, ráðherra Brexit-mála. Fagnaði Barnier þar þeim árangri sem hefði náðst í öryggis- og varnarmálum á síðustu vikum en sagði jafnframt að enn væru erfið viðfangsefni sem ætti eftir að ná sáttum um.

Tillaga Evrópusambandsins felur í sér að Norður-Írland verði „til þrautavara“ áfram hluti af Evrópusambandinu, náist ekki samkomulag um annað, en markmið þess er að halda landamærunum opnum. Opin landamæri á milli Írlands og Norður-Írlands voru á sínum tíma mikilvægur þáttur í friðarferlinu í deilunum á milli lýðveldissinna og sambandssinna á Norður-Írlandi.

Bretar hafa hins vegar lagt til að þrautavarinn verði frekar sá að allt landið verði „talið til“ Evrópusambandsins á vissum sviðum fram til ársloka 2021, þar sem óttast er að tillaga Evrópusambandsins myndi einungis slíta N-Írland frá hinum löndunum í Stóra-Bretlandi. Sagði Raab eftir fund sinn við Barnier að hann væri enn „þrjóskur og bjartsýnn“ á að samkomulag næðist í tæka tíð fyrir útgönguna á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK